Þó það sé fátt sem minni á jólin þessa dagana á Selfossi þá situr Sæunn inn í föndurherberginu sínu við Sólvellina og útbýr jólakúlurnar sínar. Það gerir hún yfirleitt fyrir öll jól, byrjar í október og er að fram að jólum. Núna er hún aðallega að gera frauðkúlur sem hún skreytir með borðum og fleiru fallegu sem hún hannar sjálf.
En hvað er skemmtilegast við jólakúlugerðina?
„Það er bara að sjá þetta verða til, það er skemmtilegt. Þetta styttir mér stundirnar þó ég sitji allt of mikið við þetta, það finn ég alveg, það er ekki mjög holt fyrir skrokkinn“, segir Sæunn sem segist vera mikið jólabarn enda var alltaf mikið föndrað fyrir jólin heima hjá henni þegar hún var barn og unglingur.
