Breytingar voru gerðar á því hvernig tæknirisinn Google dreifir forritum í snjallsíma innan Evrópusambandsins á þriðjudag. Fyrirtækið krefur snjallsímaframleiðendur nú um gjald fyrir aðgang að forritaversluninni Google Play.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sektaði Google um 4,3 milljarða evra fyrir að hafa nýtt sér markaðsráðandi stöðu á hugbúnaðarmarkaði fyrir snjallsíma til þess að bola öðrum fyrirtækjum af markaðinum, þar á meðal öðrum netleitarvélum.
Reuters-fréttastofan segir að Google hafi áfrýjað úrskurði sambandsins en í millitíðinni ætli það að gangast undir nýjar reglur um leyfiskerfi fyrir snjalltæki sem tekur gildi í október í Evrópusambandinu og evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal Íslandi.
Breytingin þýðir að framleiðendur eins og Samsung og Huawei þurfa að greiða Google fyrir aðgang að Google Play. Fram að þessu hefur Google í reynd notað aðgang að forritaversluninni til þess að þvinga framleiðendurnar til þess að setja upp Chrome-vefvafrann og leitarvél sína í snjalltæki.
Með breytingunni þurfa snjalltækjaframleiðendur ekki lengur að setja leitarvél eða vefvafra Google upp á tækjum sínum. Þannig gæti myndast sóknarfæri fyrir keppinauta Google eins og Microsoft, Opera og Mozilla.
