Ráðherra vísar þar í orð Óttars Yngvasonar, lögmanns náttúruverndarsamtaka og veiðiréttarhafa og viðmælanda í frétt RÚV, um að sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði heyri sögunni til eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrr í vikunni. Óttar sagði sömuleiðis að verið væri að ýkja mikilvægi fiskeldisins á Vestfjörðum, að í raun væru fimm til tíu manns væru við vinnu við eldið á Patreksfirði og „kannski 25“ í Arnarfirði.
Rétt að bregðast við
Sigurður Ingi segir í samtali við Vísi að sér hafi fundist rétt sem byggðamálaráðherra að bregðast við og koma réttum upplýsingum á framfæri en fyrr í dag birti ráðherra færslu á Facebook þar sem hann bendir á að í nýlegri samantekt Byggðastofnunar komi fram að um 160 til 170 bein störf séu hjá fyrirtækjunum i fiskeldinu og um 150 óbein störf. „Það þýðir að yfir 300 störf eru beintengd fiskeldinu fyrir vestan og uppbyggingu þess.“
Hann segir ekkert að því að menn hafi skiptar skoðanir á einstökum atvinnugreinum eða hlutum. „Það er þó lágmark að menn fari með rétt mál þegar þeir tala um mikilvægi starfanna, fjölda og áhrif á byggðirnar.“
Fiskeldið komið til að vera
Sigurður Ingi segir mikilvægt að finna lausnir á málinu. „Fiskeldi sem atvinnugrein hefur reynst mjög vel, ekki bara á Íslandi heldur líka í útlöndum, fyrir byggðir sem hafa þurft að þola mikla fólksfækkun og verið ákjósanlegt tæki til þess í fullkominni sátt við allt og alla. Það hlýtur að vera hægt að gera það á Íslandi. Fiskeldi er komið til að vera sem öflug atvinnugrein og er undirstaða byggðar á þessu svæði og víðar.“
Lesa má færslu Sigurðar Inga að neðan.