Erlent

Tala látinna hækkar hratt

Jóhann K. Jóhannsson og Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifa
Tala látinna hækkar hratt í Indónesíu eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna á föstudag og óttast yfirvöld að ástandið sé mun verra en búist hefur verið við. Enn hefur ekki náðst samband við nokkur héruð á svæðinu. 832 eru látnir og óttast er að sú tala fari hækkandi. 

Gríðarleg eyðilegging blasir við á eyjunni Sulawesi í Indónesíu eftir hamfarirnar á föstudag þegar að jarðskjálfti af stærðinni 7,5 reið yfir og á eftir fylgdi flóðbylgja sem var allt að sex metra há þegar að hún skall á ströndinni. Ástandi er hvar verst í borginni Palú. Hundruðir eftirskjálfta hafa fylgt stóra skjálftanum og óttast yfirvöld að þeir og flóðbylgjan hafi valdið eyðileggingu á mun stærra svæði en áður var talið. Þá sérstaklega í héraðinu Donggala sem er 300.000 manna sjávarþorp. Varaforseti landsins segir að tala látinna eigi eftir að hlaupa á þúsundum og almannavarnir reyna að tryggja björgunarstarf.

Björgunarfólk hefur átt erfitt með að komast á vettvang þar sem aurskriður hafa lokað vegum og brýr skemmdust í skjálftanum og þegar flóðbylgjan skall á. Fréttavefur BBC segir að björgunarfólk grafi með höndunum einum saman í örvæntingarfullri tilraun í leit að fólki. Margir eru taldir grafnir undir rústum bygginga sem hrundu í borginni. Farið er að bera á skorti matvæla og nauðsynja á svæðinu og segja stjórnendur Rauða krossins að ástandið eigi eftir að versna til muna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×