Stuðningsmenn Liverpool og aðrir fengu smá sýningu á því í gær hvað Liverpool missti af þegar félagið keypti Nabil Fekir ekki frá Lyon.
Nabil Fekir var nefnilega maðurinn á bak við sigur Lyon á Manchester City á Ethiad leikvanginum í Meistaradeildinni í gær.
Nabil Fekir var með fyrirliðabandið og lagði upp fyrra markið síns liðs áður en hann skoraði annað markið með flottu skoti. Lyon vann leikinn á endanum 2-1.
Norska sjónvarpsstöðin ViaSport var með mann á staðnum og fékk Nabil Fekir í viðtal eftir leikinn. Norski sjónvarpsmaðurinn spurði Frakkann hvort markið væri „hefnd“ fyrir það að kaupin gengu ekki eftir.
Nabil Fekir vildi ekki taka svo djúpt í árina en sagði þetta mál hafa hjálpað honum að gera hann enn tilbúnari í þennan fyrsta leik liðanna í Meistaradeildinni í vetur.
„Þetta var ekki hefnd en ég vildi sýna það og sanna að ég er góður leikmaður,“ sagði Nabil Fekir við ViaSport eins og sjá má hér fyrir neðan.
.@NabilFekir: – I want to prove I'm a good player.
(@JanAageFjortoft) pic.twitter.com/qAZYLXKApb
— Viasport Fotball (@ViasportFotball) September 19, 2018
Nabil Fekir lék fyrir aftan framherjann í leikkerfinu 4-4-1-1 en Memphis Depay var fremstur.
Þetta var bæði fyrsta markið og fyrsta stoðsendingin hjá Nabil Fekir í Meistaradeildinni en hann náði ekki að skora eða leggja upp í sex leikjum sínum með Lyon tímabilið 2016-16 og missti af 2015-16 tímabilinu vegna krossbandaslits.
Nabil Fekir var ekki með Lyon liðinu í tveimur fyrstu umferðunum en kom inná sem varamaður í þriðju umferð. Þetta var þriðji byrjunarliðsleikur hans á leiktíðinni og annar leikurinn í röð sem hann skorar.
Nabil Fekir skoraði einnig annað marka Lyon í 2-2 jafntefli við Caen í frönsku deildinni um síðustu helgi.