Handbolti

Patti: Hefðum getað unnið, annað mál hvort við ættum það skilið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Hleðsluhöllinni og Selfossi skrifa
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss vísir
Selfoss og Afturelding skildu jöfn í Hleðsluhöllinni í Iðu í kvöld þegar liðin mættust í þriðju umferð Olís deildar karla. Afturelding leiddi mest allan leikinn en lokamínúturnar voru æsispennandi.

„Mér fannst við byrja ágætlega varnarlega, vorum þéttir, en sóknarlega vorum við ekki nógu góðir fannst mér. Við vorum að klikka og fara svolítið úr skipulagi miðað við hvað við ætluðum að gera,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í leikslok.

„Við vorum svolítið að elta Aftureldingu og jú, ég er ánægður með eitt stig úr því sem komið var.“

Selfyssingar voru komnir í smá holu í fyrri hálfleik þegar Patrekur breytir um varnarskipulag og þeir ná að vinna sig inn í leikinn aftur.

„Það er stundum taktík að breyta ekki neitt og bíða eftir því að vörnin virki. En ég viðurkenni það alveg að ég breytti mjög mikið í þessum leik.“

„Við hefðum líka getað fengið bæði stigin, en hvort við hefðum átt það skilið, það er annað mál. Afturelding spilaði vel. Þeir héngu lengi á boltanum og voru agaðir og refsuðu með hraðaupphlaupum.“

Hvað er það helsta sem Patrekur tekur úr leik sinna manna? „Erfitt að segja til núna strax, en við þurfum bara að fara vel yfir þetta. Núna eru þrír leikir búnir og við erum með fimm stig.“

„Evrópukeppnin er næsta verkefni í Slóveníu, þá koma fimm leikir á einhverjum fimmtán dögum,“ sagði Patrekur Jóhannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×