Lið Akureyrar og KA komu bæði upp úr Grill 66 deild karla síðasta vor og mætast í fyrsta leik sínum í efstu deild í vetur.
Leikurinn hefst klukkan 19.00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
KA-menn hafa ráðlagt fólki að kaupa miða í forsölu því annars gætu verið engir miðar í boði. „Í fyrra var uppselt og þurftum við að vísa fólki frá,“ segir í Twitter-færslu KA-manna. Síðustu fréttir frá Akureyri eru að það séu örfáir miðar eftir.
Mikil eftirvænting er fyrir stórslag KA og Akureyrar annaðkvöld í #olisdeildin. Til að sporna gegn löngum biðröðum bjóðum við upp á forsölu aðgöngumiða í KA-Heimilinu á morgun milli kl. 10 og 16. Í fyrra var uppselt og þurftum við að vísa fólki frá, tryggðu þér miða sem fyrst! pic.twitter.com/cLaHRCSVB5
— KA (@KAakureyri) September 9, 2018
Akureyringar ætla að fjölmenna í KA-húsið og munu reyna að kæfa gula litinn hjá KA-mönnum ef marka má Twitter-reikning Handboltafélags Akureyrar.
„Gerum KA-húsið svart og styðjum okkar menn til sigurs,“ segir í færslu þeirra sem má sjá hér fyrir neðan.
Ef þú styður AHF þurfum við á þér að halda í KA-húsið á morgun, mánudaginn 10.september‼️
Gerum KA-húsið svart og styðjum okkar menn til sigurs
Mikilvægt að mæta tímanlega því húsið rúmar ekki marga. Í fyrra komust færri að en vildu#AkureyriHandbolti#olisdeildinpic.twitter.com/UpvtxC1rA0
— Akureyri Handboltafélag (@AkureyriH) September 9, 2018
Þetta er í fyrsta sinn sem KA og Akureyri mætast í efstu deild karla í handbolta og jafnframt fyrsti Akureyrarslagurinn í efstu deild karla síðan 16. desember 2005. Þá unnu KA-menn eins marks sigur, 26-25, í Höllinni á Akureyri.
Veturinn eftir voru KA og Þór komin í samstarf undir merkjum Handboltafélags Akureyrar en vorið 2017 slitnaði upp úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri Handboltafélag og stofnuðu KA-menn sitt eigið lið á meðan Þórsarar héldu áfram að spila undir merkjum Akureyrar.
Akureyri er með upphitun fyrir leikinn á heimasíðu sinni og þar kemur fram að það eru miklar tengingar á milli liðanna.
„Til að mynda er fyrirliði KA-manna, Andri Snær Stefánsson, leikjahæsti leikmaður í sögu Akureyrar Handboltafélags. Í leikmannahópi KA má finna fleiri goðsagnir úr sögu AHF og ber þar helsta að nefna gömlu brýnin Heimi Örn Árnason og Hrein Þór Hauksson,“ segir í fréttinni.
Þegar liðin mættust á sama stað í upphafi síðustu leiktíðar í Grill 66 deild karla vann KA 10-0 sigur eftir að leikurinn hafði endað með 19-19 jafntefli. Í síðari leik liðanna vann Akureyri fjögurra marka sigur, 24-20, fyrir framan meira en 1100 áhorfendur í Íþróttahöllinni.
KA-menn auglýsa líka leikinn á heimasíðu sinni og kalla leikinn „baráttuna um bæinn“ en það má lesa upphitun þeirra með því að smella hér.