Leikmenn úrvalsdeildarliðanna á Spáni munu ráða því hvort að leikir í La Liga verði spilaðir í Bandaríkjunum. Þetta segja spænsku leikmannasamtökin.
Forráðamenn La Liga hafa nú þegar samþykkt að spila einn leik á hverju tímabili í Bandaríkjunum næstu fimmtán árin. Samþykki sem þeir gáfu þrátt fyrir mótbárur leikmannasamtakanna og spænska knattspyrnusambandsins.
„Leikmennirnir, í gegnum leikmannasamtökin, verða þeir sem ráða því hvort leikir verði spilaðir í Bandaríkjunum,“ sagði í tilkynningu frá samtökunum í gær.
Fyrsti leikurinn sem á að fara fram í Bandaríkjunum samkvæmt spænskum fjölmiðlum er heimaleikur Girona við Barcelona. Grannaslagur í Katalóníu, sem á nú að vera leikinn í Miami í Bandaríkjunum.
La Liga hefur nú þegar gefið út að þeir stuðningsmenn sem ætli að ferðast á leikinn fái útgjöld sín niðurgreidd.
