Erlent

Leiðtogar Kóreuríkjanna föðmuðust við upphaf heimsóknar Moon til Pyongyang

Atli Ísleifsson skrifar
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, í Pyongyang í morgun.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, í Pyongyang í morgun. Vísir/EPA
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, kom til norður-kóresku höfuðborgarinnar Pyongyang í morgun þar sem einræðisherrann Kim Jong-un tók á móti honum. Tilgangur fundar leiðtoganna er að liðka fyrir frekari fundum Norður-Kóreumanna og Bandaríkjastjórnar um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.

Mörg hundruð Norður-Kóreumanna tóku á móti suður-kóreska forsetanum á flugvellinum í Pyongyang og veifuðu fánum.

Leiðtogarnir föðmuðust þegar þeir heilsuðust, ræddu saman í nokkrar mínútur og fóru svo saman í móttökuathöfn. Þegar leiðtogarnir ferðuðust saman um götur Pyongyang í bíl eiga margir að hafa hrópað slagorð um sameiningu ríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ku hafa beðið Moon um að vera milliliður í samskiptum hans og Kim, en eftir heimsóknina til Norður-Kóreu heldur Moon til New York, í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann mun eiga tvíhliða fund með Trump.

Gengið á ýmsu

Eftir sögulegan fund Trump og Kim í Singapúr í júní síðastliðinn rituðu leiðtogarnir undir yfirlýsingu þar sem fram kemur að Norður-Kórea skuli vinna að algerri kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga. Eftir fundinn hefur gengið á ýmsu þar sem Kim hefur meðal annars harðlega gagnrýnt kröfu Bandaríkjastjórnar um afvopnun, auk þess að Trump aflýsti fyrirhugaðri ferð Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Norður-Kóreu.

Þriggja daga heimsókn Moon til Norður-Kóreu er þriðji fundur leiðtoga Kóreuríkjanna á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×