Sanna ræddi stöðu innflytjenda og hælisleitenda í ræðu sinni á fundinum. Í ræðunni, sem hún birti í heild á Facebook-síðu sinni, segir hún áðurefnda samfélagshópa eiga undir högg að sækja á húsnæðis- og vinnumarkaði. Þá sakar hún fyrirtækið Strætó bs. um níðingsskap og spillingu.
„En nú er þessi níðingsskapur orðið normið á leigumarkaði og yfirgangur fyrirtækja á starfsfólki sínu er líka orðið normið. Starfsmannaleigur ná langt inn í opinber fyrirtæki. Strætó hefur leigt fólk sem starfsmannaleigur greiða lægstu laun og starfsmannaleigurnar ná svo peningum af með því að leigja því bedda í margra manna herbergi fyrir svívirðilegt verð,“ segir í ræðu Sönnu.
„Félagslegar stofnanir eins og strætó er orðinn spilltur af þessu hugarfari sem sprettur af því að við slepptum kapítalistum og okrurum á fólk.“
Sanna sendi Strætó bs. fyrirspurn vegna málsins áður en hún flutti ræðuna í borgarstjórn. Í skriflegu svari Sigríðar Harðardóttur, mannauðsstjóra Strætó bs., við fyrirspurn Sönnu segir að starfsmenn Strætó séu með ráðningarsamning beint við fyrirtækið og þeim séu greidd laun í samræmi við kjarasamning Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó. Svar Sigríðar má sjá í heild hér að neðan.
„Starfsmannaþjónustan Elja hefur sl. 3 ár aðstoðað Strætó við að ráða vagnstjóra til starfa. Ólíkt öðrum viðskiptavinum Elju þá eru viðkomandi starfsmenn með ráðningasamning beint við Strætó líkt og allir aðrir starfsmenn fyrirtækisins og fá laun skv. kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó.“