Húsið var mannlaust þegar eldurinn kom upp hinn 29. júní síðastliðinn en íbúar voru á heimleið úr afmælisveislu í Reykjavík þegar símtalið barst. „Okkur var sagt að það væri kviknað í húsinu okkar og að slökkviliðið væri að reyna að komast inn. Eða nágranni var reyndar að reyna að komast inn en var ekki með lykil," segir Jóhanna Kristín Þorsteinsdóttir.
Fjölskyldan missti aleiguna í brunanum og að sögn slökkviliðs mátti litlu muna að húsið brynni til grunna. Þá voru gæludýr fjölskyldunnar læst inni þegar eldurinn kom upp. „Þarna var hundurinn okkar og kanínan sem við vorum að passa og gullfiskarnir. Það var gert allt til að reyna bjarga hundinum en það gekk ekki," segir Jóhanna.

„Þegar ekkert loft kemst að tækinu, sem gerist þegar því er stungið undir kodda eða á milli í sófa, þá myndast það mikill hiti að sjálfíkveikja í tækinu verður," segir Snorri Guðmundsson, slökkviliðsmaður og matsmaður eignatjóna hjá VÍS.
Samkvæmt upplýsingum frá VÍS er nokkrum sinnum á ári tilkynnt um bruna af völdum snjalltækja og hjá TM er skráð eitt tjón þar sem eldur kviknaði út frá snjallsíma sem ofhitnaði undir sæng.
„Þetta er inni á hverju einasta heimili. Jafnvel mörg svona tæki og það er unga fólkið sem er aðallega með þetta, krakkar og unglingar. Maður getur hreinlega aldrei farið of varlega með þessi tæki. Það þarf að hafa þau á stað þar sem loftar um þau að minnsta kosti og hafa hugann við þau á meðan þau eru í hleðslu af því þetta getur hitnað," segir Snorri