Ráðherra Brexit-mála hefur birt ráðleggingar fyrir Breta ef svo fer að Bretland gengur úr Evrópusambandinu á næsta ári án þess að nokkur samningur liggir fyrir um hvernig samskiptunum við Evrópu verður háttað í framhaldinu.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að á meðal ráðlegginganna séu leiðbeiningar fyrir fyrirtæki sem gætu þurft að takast á við aukna skriffinnsku á landamærum og viðbúnaðaráætlanir um hvernig hægt er að forðast lyfjaskort. Bretar sem ferðast til Evrópusambandsríkja gætu einnig þurft að greiða hærri færslugjöld á greiðslukortum sínum.
Dominic Raab, Brexit-ráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, lýsir ráðleggingunum sem „hagsýnum og í samræmi við tilefnið“. Hann segir að forgangsmál ríkisstjórnarinnar sé að ná samningi við Evrópusambandið og langlíklegast sé að það takist. Bretar þurfi hins vegar að vera tilbúnir að takast á við afleiðingarnar ef það mistekst.
Að óbreyttu ganga Bretar úr Evrópusambandinu 29. mars á næsta ári.
