Erlent

Gítarleikari Lynyrd Skynyrd látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ed King sést hér fremst til hægri. Myndin er tekin árið 1974 en með honum eru aðrir meðlimir Lynyrd Skynyrd.
Ed King sést hér fremst til hægri. Myndin er tekin árið 1974 en með honum eru aðrir meðlimir Lynyrd Skynyrd. vísir/getty
Fyrrverandi gítarleikari rokksveitarinnar Lynyrd Skynyrd, Ed King, er látinn. Hann var 68 ára að aldri.

Gítarleikarinn, sem var meðal höfunda ofursmellsins Sweet Home Alabama, lést á heimili sínu í Nashville í gærkvöldi en ekki er vitað um dánarmein. Hann hafði lengi háð hetjulega baráttu við lungnakrabbamein og telur tímaritið Rolling Stone að það kunni að hafa orðið honum að bana.

King gekk til liðs við Lynyrd Skynyrd árið 1972. Hann sagði þó skilið við sveitina þremur árum síðar, eftir að hafa lent upp á kant við söngvara hennar, Ronnie Van Zant.

Þrátt fyrir það má heyra gítarleik King á þremur plötum hljómsveitarinnar. Þá má jafnframt heyra hann telja, „One, Two, Three,“ í byrjun fyrrnefnds Sweet Home Alabama.

Lynyrd Skynyrd var leyst upp eftir að þrír meðlimar sveitarinnar, þeirra á meðal söngvarinn Van Zant, létust í flugslysi árið 1977. Á endurkomutónleikaferðalagi sveitarinnar árið 1987, þegar yngri bróðir Van Zant sá um sönginn, ákvað King þó að ganga aftur til liðs við Lynyrd Skynyrd. Hann lagði þó rokkið alfarið á hilluna 9 árum síðar, eftir þrálátar hjartsláttartruflanir.

King var tekinn inn í frægðarhöll rokksins árið 2006, ásamt öðrum eftirlifandi meðlimum Lynyrd Skynyrd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×