Veðurspár benda til þess að hitinn á Spáni gæti farið yfir 44°C í fyrstu hitabylgju sumarsins þar. Heilbrigðisyfirvöld hafa hvatt heimamenn og ferðamenn til að búa sig undir hitann sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Veðurstofa Spánar segir að hitinn gæti varað frá deginum í dag fram á sunnudag að minnsta kosti. Heitt loft frá Afríku færist nú norður yfir Íberíuskaga og er gert ráð fyrir að hitinn verði hvað mestur á suðvestanverðum Spáni, miðju landinu og í Ebro-dalnum. Hitinn gæti farið yfir 40°C frá og með deginum í dag, að sögn The Guardian. Á fimmtudag og föstudag gæti hann farið um og yfir 42-44°C.
Appeslínugul viðvörun er í gildi vegna hitabylgjunnar í Madrid, Toledo, Extremadura-héraði og hluta vestanverðrar Andalúsíu, þar á meðal í héruðunum í kringum vinsælu ferðamannaborgirnar Sevilla og Córdoba.
Þeim tilmælum hefur verið beint til fólks að drekka nóg af vatni, takmarka neyslu á áfengi og koffíni og að hafa auga með viðkvæmu fólki í umhverfi sínu, sérstaklega börnum og eldra fólki.

