Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa náð samkomulagi við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem muni koma í veg fyrir tollastríð sem hefur verið í uppsiglingu.
Trump og Juncker þinguðu í Hvíta húsinu í dag ásamt ráðgjöfum. Fundurinn gekk að allra sögn vel og sagði Trump að honum loknum að þetta hafi verið: „Stór dagur, mjög stór dagur fyrir frjáls og óhindruð viðskipti!“
Sagði Trump samkomulagið geta markað tímamót í sambandi Bandaríkjanna við ESB. Skipaður verði starfshópur sem muni róa að því öllum árum að fella niður tolla, niðurgreiðslur og aðrar viðskiptahindranir.
Undantekningin er bílaiðnaðurinn. Trump virðist halda fast í áform sín um að innleiða háa tolla á innflutta bíla og mun Evrópusambandið án efa svara í sömu mynt ef af því verður.
Juncker sagðist á blaðamannafundi vera bjartsýnn á að samningar næðust þrátt fyrir að viðræður um smáatriðin væru enn á byrjunarstigi.
