Miðvörðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson tryggði Valsliðinu sigurinn skömmu fyrir leikslok en markið kom eftir fyrirgjöf Guðjóns Péturs Lýðssonar og skalla-stoðsendingu frá Tobias Bendix Thomsen.
Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Íslandsmeistararnir byrja Evrópusumarið á sigri en það hafði ekki gerst síðan árið 2013.
Síðasta íslenska liðið til að vinna sinn fyrsta leik á sumri í Meistaradeildinni var FH-liðið frá 2013. FH vann þá 1-0 sigur á litháenska félaginu Ekranas en leikurinn fór fram í Litháen.
Líkt og í gærkvöldi var það miðvörður sem skoraði eina mark leiksins en Pétur Viðarsson skoraði eina mark FH-inga á 30. mínútu leiksins.
Markið kom líka í kjölfarið á aukaspyrnu en Valsmenn skoruðu sigurmarkið sitt í gær eftir að Rosenborg mistókst að létta af pressunni eftir aukaspyrnu Valsliðsins.
Þessir sigrar Vals (í gær) og FH (fyrir fimm árum) eru jafnframt einu sigrar Íslandsmeistara í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni á undanförnum áratug.
Fyrir utan þessa tvo leiki er uppskeran 2 jafntefli og 7 jafntefli í fyrsta Evrópuleik Íslandsmeistarana á sumrunum 2008 til 2018. Markatalan í þessum 9 leikjum er síðan - íslensku liðunum í óhag og oftar en ekki hefur einvígið verið búið fyrir seinni leikinn.
Það er hinsvegar ekki nú. Valsmenn fara með eins marks forskot og hreint mark út í seinni leikinn í Þrándheimi og hafa því allt til alls til að slá út norska félagið. Verkefnið verður allt annað en auðvelt en góður möguleiki er staðar eftir eftir frábær úrslit í gær.

2018 (+1)
Valur vann 1-0 sigur á norska félaginu Rosenborg
2017 (=)
FH gerði 1-1 jafntefli við færeyska félagið Víking frá Götu
2016 (=)
FH gerði 1-1 jafntefli við írska félagið Dundalk
2015 (-2)
Stjarnan tapaði 2-0 fyrir skoska félaginu Celtic
2014 (-1)
KR tapaði 1-0 fyrir skoska félaginu Celtic
2013 (+1)
FH vann 1-0 sigur á litháenska félaginu Ekranas
2012 (-7)
KR tapaði 7-0 á móti finnska félaginu HJK Helsinki
2011 (-5)
Breiðablik tapaði 5-0 á móti norska félaginu Rosenborg
2010 (-4)
FH tapaði 5-1 á móti hvít-rússneska félaginu BATE Borisov
2009 (-4)
FH tapaði 4-0 á móti kasakska félaginu Aktobe
2008 (-2)
Valur tapaði 2-0 á móti hvít-rússneska félaginu BATE Borisov
2007 (+3)
FH vann 4-1 sigur á færeyska félaginu HB