Þeir hafa nú verið útskrifaðir og munu þeir halda blaðamannafund síðar í dag. Hér að neðan má sjá beina útsendingu Sky News þar sem fjallað er um heimkomuna. Þá mun sjónvarpsstöðin sýna beint frá blaðamannafundinum á eftir.
Þetta verður í fyrsta sinn sem drengirnir ávarpa fjölmiðla opinberlega eftir að þeir losnuðu úr prísundinni. Alþjóðasamfélagið fylgdist spennt með þegar fjölþjóðlegur hópur kafarara sótti strákana niður í hellakerfið, þar sem þeir höfðu hírst í um 16 sólarhringa. Að fundinum loknum munu drengirnir halda heim til fjölskyldna sinna.
Blaðamönnum gefst færi á að spyrja drengina spjörunum úr - „en eftir fundinn mun daglegt líf þeirra hefjast á nýju fjarri auga fjölmiðlanna,“ er haft eftir talsmanni tælenskra stjórnvalda. Þau vonast til að fjölmiðlamenn gefi drengjunum svigrúm til að jafna sig enda hafi þeir verið undir miklu sálrænu álagi á síðustu vikum.
Í því samhengi má nefna að fjölmiðlamenn þurftu að fá samþykki stjórnvalda fyrir þeim spurningum sem þeir vildu bera undir strákana. Barnasálfræðingur hafði yfirumsjón með samþykktarferlinu til að tryggja velferð drengjanna.