Síðasta verk kjararáðs var að hækka laun ýmissa forstöðumanna ríkisstofnanna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ákvörðun þess efnis var birt á vef ráðsins í gær en kjararáð lauk starfi sínu um síðustu mánaðarmót. Félag forstöðumanna ríkisstofnanna hafði kallað eftir því að ráðið myndi taka laun þeirra til athugunar áður en það hætti störfum, en Alþingi samþykkti að leggja ráðið niður á lokadögum þingsins.
Beiðnir forstöðumannanna höfðu komið á borð ráðsins á árunum 2016-2017. Alls hækka laun 46 forstöðumanna og er meðaltalshækkun 10,8 prósent. Ákvörðunin er dagsett 1. desember 2017.
Meðal þeirra sem hækka í launum er nýráðinn forstjóri Vegagerðarinnar, forstjóri Samgöngustofu, þjóðleikhússtjóri, rektorar HA, HÍ og Háskólans á Hólum svo einhver séu nefnd.
Úrskurðinn má nálgast í heild sinni hér.
