Það verður heitt þegar að íslenska landsliðið gengur út á Volgograd-völlinn í Volgograd í kvöld er það mætir Nígeríu í öðrum leik D-riðils á HM 2018.
Hitastigið verður um 35 gráður sem gerir mönnum erfiðara um vik að spila 90 mínútna fótboltaleik. Þetta er eitthvað sem Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er full meðvitaður um.
„Við spiluðum í nokkuð miklum hita á móti Argentínu sem var mjög erfiður leikur. Ég veit að það spáir einhverjum nokkrum gráðum heitar hér,“ segir Heimir.
Eðlilega henta þessa aðstæður Afríkuþjóðinni betur en Heimir er með allt útpælt fyrir morgundaginn og segist ekkert eini þjálfarinn sem hefur þurft að taka mið af slíku hitastigi.
„Líklega hentar það Nígeríubúum betur heldur en Íslendingum að spila í svona hita. Við munum taka það til umhugsunar þegar að við setjum upp okkar leikplan en ég hugsa að það gera allir í 30 gráðu hita hvort sem er. Við erum ekkert öðruvísi heldur en aðrir,“ segir Heimir Hallgrímsson.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.
