Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, tilkynnti í dag að flóttamannaskipið Lifeline fái að leggja við höfn á Möltu. Um 230 flóttamenn eru um borð og sagði Muscat að þeir sem þurfa á alþjóðlegri vernd að halda fái að dvelja í landinu áfram.
Skipið var fimm daga á reiki á Miðjarðarhafinu þar sem það fékk upphaflega ekki leyfi til að koma til hafnar. Eftir að samningaviðræður við sjö önnur Evrópuríki féllst Muscat á að hleypa skipinu að landi gegn því að ríkin sjö taki á móti hluta flóttamannanna. Ríkin eru Ítalía, Lúxemborg, Holland, Belgía, Frakkland, Portúgal og Írland.
Þetta er þriðja flóttamannaskipið á viku sem hefur komist í fréttir vegna tregðu Evrópuríkja við að veita þeim leyfi til að leggjast til hafnar. Í síðustu viku neituðu ítölsk stjórnvöld að taka á móti skipinu Aquarius en um borð voru 630 flóttamenn. Spænsk stjórnvöld hleyptu skipinu að lokum í höfn í Valencia.
Þá var 108 flóttamönnum hleypt í land á Sikiley í síðustu viku af fraktskipinu Alexander Maersk.
Mikill þrýstingur hefur skapast í Evrópu um að finna lausn á flóttamannavandanum en Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að Ítalía geti ekki lengur tekið á sig megnið af byrðunum sem fylgir þeim fjölda flóttamanna sem koma til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Leiðtogar Evrópusambandsins koma saman í Brussel á morgun til að freista þess að finna lausn á málum.
Flóttamannaskip fær í höfn á Möltu eftir fimm daga á reiki

Tengdar fréttir

Evrópuríki deila vegna andstöðu Ítala við flóttamenn
Skot ganga á milli frönsku og ítölsku ríkisstjórnarinnar eftir að sú síðarnefnda neitaði björgunarskipi með farandfólk um leyfi til að koma til hafnar í byrjun vikunnar.

Aquarius komið til Spánar
Björgunarskipið Aquarius kom til hafnar í spænska bænum Valencia í gær.