Oddvitar Sjálfstæðisflokksins og óháðra og Jákvæðs samfélags hafa undirritað málefnasamning um meirihlutasamstarf í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðisbæjar. Nýr meirihluti á ærin verkefni fyrir höndum því auk þess að starfa saman í meirihluta þurfa flokkarnir að sameina tvö rótgróin sveitarfélög í eitt.
Stóra verkefnið sem bíður nýrrar bæjarstjórnar er nýtt aðalskipulag sem mun þá ráða miklu um það hvernig bæjarfélagið byggist upp á næstu árum. Efst á blaði eru leikskólamál og að tengja byggðarkjarnana tvo betur saman.
Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og óháðra í Garði og Sandgerði, verður forseti bæjarstjórnar og Ólafur Þór Ólafsson, oddviti Jákvæðs samfélags í Garði og Sandgerði, verður formaður bæjarráðs.
Flokkarnir hafa ákveðið að staða bæjarstjóra verði auglýst og ráðið í hana út frá faglegum forsendum.
Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi hefst miðvikudaginn 20. júní.
Flokkarnir í meirihluta eru tveir stærstu flokkarnir í Sandgerði og Garði en Sjálfstæðisflokkurinn og óháðir hlaut alls 34,54% atkvæða og fékk 3 menn kjörna. Jákvætt samfélag fékk 29,25% atkvæða og 3 menn kjörna, líkt og D-listi.
Það er kannski táknrænt fyrir sameiningu sveitarfélaganna að flokksleiðtogarnir tveir hafa aðsetur hvor í sínum bænum. Einar Jón Pálsson, oddviti sjálfstæðisflokksins og óháðra, býr í Garði og Ólafur, oddviti Jákvæðs samfélags, býr í Sandgerði.
Fréttin hefur verið uppfærð.

