„Ég titra af spenningi eins og krakki að bíða eftir jólagjöfunum,“ segir Jón Daði. Hann er einlægur í viðtölum sem er í takti við persónuleikann, heimakær Selfyssingur í hinum stóra atvinnumannaheimi. Hann hefur þó hvergi gleymt rótunum. Reglulega gefur hann af sér í heimabænum, situr fyrir á myndum, fer á æfingar hjá yngri flokkum og gefur eiginhandarráritanir og góð ráð.

Enginn sem þekkir til Jóns Daða eða hefur rætt við hann efast eina sekúndu um að hann meinar það sem hann segir. Rótunum má ekki gleyma.
„Algjörlega, þú mátt ekkert gleyma því. Einhvern veginn eins og ég hef alltaf verið og held áfram að vera.“

„Þetta var gjöf sem konan mín gaf mér fyrir mót, kveðjugjöf, afmælisgjöf. Hún bjó til þessa bók þar sem fullt af vinum og fjölskyldumeðlimum skrifuðu falleg kvejðuorð fyrir mót. Það hefur sannarlega gefið mér innblástur og góða tilfinningu fyrir mótið,“ segir Jón Daði.
Hann nýtur þess að skoða hana.
„Ég greip í hana í fyrradag og er ekki frá því að það féllu smá tár. Þetta var svo fallega skrifað hjá öllum. Þetta er örugglega besta gjöf sem kærastan hefur gefið mér.“
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.