Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, er í skýjunum með undirbúning
íslenska liðsins og íslenska hópsins fyrir heimsmeistaramótið en okkar menn hefja leik á móti Argentínu í dag.
Fyrir tveimur árum, þegar að Ísland fór á EM, voru allir að gera þetta í fyrsta sinn en nú hafa menn lært af reynslunni sem hjálpar til við að gera undirbúninginn betri.
„Við erum búnir að vera lengi að undirbúa þetta og ég er það heppinn að ég er með það gott fólk í kringum mig sem nú veit út í hvað við erum að fara,“ segir Heimir en hann svaraði spurningum á blaðamannafundi í gær.
„Eins og Aron sagði hefur undirbúningurinn verið það góður að við erum ekkert að redda einhverju á síðustu stundu sem hefur oft farið í taugarnar á þjálfaranum eða þeim sem er að reyna að stjórna hlutum. Þetta er allt mjög vel skipulagt.“
Heimir er með gott fólk í kringum sig sem hjálpar honum að hafa allt sem best fyrir sig og strákana. Eyjamaðurinn er kröfuharður og brosið varð að skeifu í fyrradag þrátt fyrir að hann vildi ekki fara nánar út í það.
„Ég er með gott stuðningsnet. Ég fór aðeins í fýlu í gær [fyrradag] en það voru menn sem að lyftu mér upp og hristu mig aðeins til. Ég held að við erum aðeins meira meðvitaðir um umfangið og allt í kringum þetta en hvort að hjálpi okkur svo úti á velinum verður að koma í ljós,“ segir Heimir Hallgrímsson.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.
