Það var engin tilviljun að Hannes skutlaði sér í rétt horn í gær því gríðarlegur undirbúningur fer í hvern leik hjá markvarðateyminu. Bæði er farið yfir málin á fundum og svo vinna menn sjálfir heimavinnuna sína.
„Vinnureglan er sú að ég tek saman fullt af klippum eins og ég gerði fyrir þennan leik og fyrir alla aðra leiki. Á honum eru vítaspyrnur, aukaspyrnur og föst leikatriði,“ segir Guðmundur en lítill minniskubbur skilaði svo sögulegri stundu í íslenskri fótboltasögu í gær.
Guðmundur vissi alveg hvert Messi var að fara að skjóta í gær líkt og Hannes Þór Halldórsson.
„Þegar að Messi er með sjálfstraustið í botni þá skýtur hann yfirleitt fast í hitt hornið en þegar að hann er undir pressu og þegar að hann þarf að skora og allt er undir skýtur hann í hornið sem Hannes fór í í gær,“ segir Guðmundur Hreiðarsson.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.