Maradona var staddur á leiknum í gær en hann er sérfræðingur á vegum sjónvarpsstöðva frá Ítalíu og Venesúela á meðan mótinu stendur. Argentískir fjölmiðlar hafa margir hverjir gert sér mat úr ummælum Maradona í sjónvarpi eftir leikinn þar sem segja má að hann hafi gagnrýnt þjálfarann harkalega.
„Við gátum ekki leyst vandamálin sem Ísland færði okkur. Við erum að tala um Ísland, þjóð með 350-400 þúsund íbúa,“ sagði Maradona sem hafði ekkert slæmt að segja um Ísland.
„Ísland spilaði eins og það spilaði og það þýðir ekkert að tala um það að þeir dekkuðu Messi með fjórum leikmönnum eða það að þeir leystu varnarleikinn vel. Vandamálið er að Argentína vissi ekki hvernig það átti að sækja á markið. Gleymum Íslandi og einbeitum okkur að Argentínu, sem gat ekki leyst úr leik Íslands,“ sagði Maradona.

„Ef Argentína spilar svona þá getur Sampaoli ekki komið heim til Argentínu. Það er skömm að hafa ekki undirbúið liðið betur vitandi það til dæmis að íslenska liðið er 1.90 sentimetrar að hæð að meðaltali en samt settum við öll hornin inn í teig í staðin fyrir að taka þau stutt,“ sagði Maradona.
Stendur í ströngu
Goðsögnin hefur reyndar staðið í ströngu eftir leikinn en hann hefur verið sakaður um kynþáttafordóma á leiknum. Er hann sagður hafa gert sig skáeygðan eftir að suður-kóreskir stuðningsmenn kölluðu til hans á leiknum í Moskvu í gær.Maradona þvertekur fyrir að slíkt hafi átt sér stað og segir aðeins hafa verið að heilsa hópnum. Þá hefur Maradona beðist afsökunar á því að hafa reykt vindil á leiknum en slíkt er stranglega bannað samkvæmt reglum FIFA.