Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Margrét Friðriksdóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal sendu til fjölmiðla í kvöld.
„Við undirrituð lýsum yfir fullu trausti til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem hefur á undanförnum árum leitt mikla og góða uppbyggingu í bænum. Algjör eining er um það í bæjastjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins og hefur Ármann óskorað umboð bæjarfulltrúa til meirihlutaviðræðna í Kópavogi,“ segir í henni.
Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili og hélt sá meirihluti í nýafstöðnum kosningunum. Fyrir kosningar lýsti Theódóru Þorsteinsdóttur, oddviti sameiginlegs framboðs Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, að eðlilegt væri að meirihlutinn myndi starfa áfram saman yrðu úrslit kosninganna á þann veg.
Bjuggust því margir við að áframhald yrði á samstarfinu. Enn liggur þó ekkert fyrir um myndun meirihluta í Kópavogi en Ágreiningur Sjálfstæðismanna um myndun meirihluta í er sagður snúast um afstöðu þeirra Margrétar Karenar Elísabetar og Guðmundar Gísla, sem vilji ekki starfa áfram með Theódóru.

Segja samskipti flokkanna hafa verið endurmetin
Á Sprengisandi í dag lýsti Theódóra því yfir að Ármann vildi áframhaldandi samstarfs meirihlutans og að hún upplifði afstöðu bæjarfulltrúanna þriggja sem rýting í bakið á Ármanni. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Theódóra að hún teldi afstöðu bæjarfulltrúanna þriggja snúast um sína persónu, fremur en pólitískan ágreining.Um mögulegt samstarf BF Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins segir í yfirlýsingu bæjarfulltrúanna þriggja að þau hafi lýst yfir efasemdum um áframhaldandi samstarf flokkanna.
„Með samstarfi Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hafa forsendur breyst og samskiptin á kjörtímabilinu hafa verið endurmetin á undaförnum dögum,“ segir í yfirlýsingunni.
Dregið gæti til tíðinda fljótlega en líklegt þykir að Sjálfstæðisflokkurinn myndi meirihluta með Framsóknarflokknum. Sjálfstæðismenn hafa fundað um málið í dag og halda áfram að funda á morgun.