Það er ekkert mjög líklegt að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir nái að taka æfingahring fyrir US Open í dag vegna veðurs og svo gæti farið að mótið klárist ekki fyrr en á mánudag.
Eins og staðan er akkúrat núna hamla þrumur, eldingar og mikil rigning því að kylfingar fái að að mæta á Shoal Creek völlinn. Svæðið er lokað og verður staðan metin klukkan 16.00 að íslenskum tíma (11.00 að staðartíma).
Þegar hafa komið upp vangaveltur um hvað verði gert ef völlurinn verður lokaður í allan dag og kylfingar ná ekki að leika æfingahring. Verður mótið stytt í 54 holur og æfingahringur á morgun? Verður æfingahringur á morgun og mótið klárað á mánudag?
Þetta kemur allt í ljós á næstu klukkustundum en það er ljóst að enginn fær að fara út á völl ef ekki fer að stytta upp og þrumuveðrið að ganga yfir.
