Hávær orðrómur hefur verið uppi um að fyrirliði KR, Brynjar Þór Björnsson, ætli sér að söðla um í sumar og ganga í raðir Tindastóls.
Það væru heldur betur risatíðindi ef af yrði enda Brynjar verið algjör lykilmaður í meistaraliði KR í fjöldamörg ár. Hann afgreiddi til að mynda Stólana á eftirminnilegan hátt í Síkinu í úrslitarimmunni.
„Það er ekki búið að ákveða neitt. Það er allt opið hjá mér,“ segir Brynjar Þór sem er staddur í brúðkaupsferð enda var hann að gifta sig um nýliðna helgi. Hann útilokar ekki neitt og hefur heyrt þessar sögur sem blaðamaður spyr um.
„Ég er búinn að heyra þennan orðróm nokkrum sinnum og fengið símtöl frá fullt af fólki vegna þeirra. Framtíðin er óráðin hjá mér. Nú er ég bara að njóta hveitibrauðsdagana og svo þegar ég kem heim fer ég að ákveða framhaldið hjá mér.“
