Handbolti

Arnar: Ákveðið plan sem gekk ekki eftir

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. vísir/getty
„Hann var góður í markinu. Það verður ekki af honum tekið,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, um Birki Fannar, markvörð FH, eftir 28-25 tap hans manna gegn FH í kvöld.

Þetta var annar leikur liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla og það er skammt frá því að segja að leikurinn gekk ekki sem skildi hjá deildar og bikarmeisturunum.

„Við vorum ekki alveg nógu beittir. Það verður að segjast alveg eins og er. Við vorum líka klaufar í brottvísunum og það reyndist okkur dýrt,“ sagði Arnar en ÍBV var á kafla með þrjá menn í tveggja mínútna brottvísun á einum og sama tímanum og FH nýtti sér það vel.

En hver var munurinn á milli liðanna í kvöld?

„Hann var ekki mikill en nógu mikill fyrir þá til að sigra þetta. Mér fannst við bara ekki nógu beittir í seinni hálfleik. Við vorum með ákveðið plan í gangi sem gekk bara ekki eftir,“ sagði Arnar sem segir þessi úrslit vera góð fyrir meðal handbolta áhugamanninn á landinu.

„Þetta er hörkueinvígi. Tvö frábær lið og nú höldum við bara áfram á fimmtudaginn.“

Hann hrósaði stuðningnum sem liðið fékk að lokum en eyjamenn fjölmenntu í kvöld og létu vel í sér heyra.

„Stuðningurinn er auðvitað bara magnaður. Algjörlega magnaður. Skemmtuninn heldur bara áfram.“

Næsti leikur liðanna fer fram í Vestmanneyjum á fimmtudagskvöldið klukkan 18:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×