Ingólfstorg verður þó ekki yfirgefið því allir leikir keppninnar verða sýndir þar. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í Hljómskálanum í dag.
Síðustu leikir Íslands voru fluttir á Arnarhól fyrir tveimur árum en ákveðið var að Hljómskálagarðurinn hentaði betur í þetta verkefni.
„Knattspyrnuhátíðin í miðborginni heldur áfram þetta sumarið og nú tekur HM-torgið við af EM-torgum síðustu ára. Það er auðvitað mikið gleðiefni að við séum í þeirri stöðu á hverju ári að bjóða til annarrar eins knattspyrnuveislu. Samstarf KSÍ, Reykjavíkurborgar og bakhjarla KSÍ hefur verið öflugt og reynsla síðustu ára mun gera okkur kleift að gera enn betur í sumar,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, var einnig viðstaddur fundinn og tók undir orð Guðna.
„Reykjavíkurborg býður alla velkomna að fylgjast með leikjunum og upplifa einstaka stemningu í fallegu umhverfi og góðri aðstöðu. HM er risaviðburður og við erum stolt af því að geta boðið öllum landsmönnum jafnt sem erlendum gestum upp á þennan möguleika.“
Ísland hefur leik á HM gegn Argentínu þann 16. júní, gegn Nígeríu 22. júní og lokaleikurinn í riðlinum verður 26. júní. Fari Ísland upp úr riðlinum stendur til að þeir leikir verði einnig í Hljómskálagarðinum.
