Liðþófi rifnaði í hægra hné Arons Einars í leik með félagsliði hans Cardiff City um helgina og varð hann að fara í uppskurð eins fljótt og hægt var.
„Tíminn frá því að ég meiddist og fram að því að ég fékk niðurstöður um hversu alvarlegt þetta væri var einhver sá óþægilegasti sem ég hef lifað. Ég var farinn að búa mig undir það versta en sem betur fer þá voru meiðslin ekki jafn slæm og ég óttaðist,“ sagði Aron Einar í tilkynningu sem send var fjölmiðlum nú í morgun.
„Ég er þakklátur fyrir þann kraft sem settur hefur verið í að meðhöndla mig. Stjórnendur Cardiff sem og þeir sem starfa hjá íslenska landsliðinu eru búnir að slá í takt undangengna daga og það eru allir að gera sitt besta til að tryggja að ég nái sem skjótustum bata. Aðgerðin á mánudaginn heppnaðist vel og í dag byrjar ferlið þar sem ég vinn mig smám saman aftur af stað. Þetta verður hvorki þægilegt né skemmtilegt, en það breytir mig engu. Ég er bjartsýnn og ég geri bara það sem ég þarf að gera til að vera klár í tæka tíð.“
Aðeins 45 dagar eru í fyrsta leik á HM þar sem Ísland mætir Argentíu í Moskvu og er enginn vafi í huga Arons að hann muni verða þar með landsliðinu.
„Ég ætla mér á HM, svo einfalt er það,“ sagði Aron.
Aron er ekki eina íslenska íþróttastjarnan sem hefur orðið fyrir áfalli vegna meiðsla en Gunnar Nelson þurfti að hætta við bardaga sinn sem átti að fara fram í Liverpool í maí vegna meiðsla. Hann tók til samfélagsmiðla og lýsti yfir stuðningi við fyrirliðann.
Góðan bata kafteinn. Hlakka til að sjá þig á HM í Rússlandi. Ef þú vilt kíkja í kaffi þá er ég heima líka með fótinn uppí loftið
— Gunnar Nelson (@GunniNelson) May 1, 2018
Haha hljómar vel, ég er pro á hjólastól #wheelies
— Gunnar Nelson (@GunniNelson) May 1, 2018