Mótmælendur í Armeníu lokuðu götum í höfuðborginni Jerevan í dag eftir að leiðtogi stjórnarandstöðunnar náði ekki kjöri sem næsti forsætisráðherra á þingi í gær. Hann hafði hvatt mótmælendur til borgaralegrar óhlýðni.
Lögregla reyndi að fá mótmælendur til að hleypa umferð aftur í gegn en beitti ekki valdi, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Mótmælendurnir lokuðu meðal annars vegi sem liggur að alþjóðaflugvellinum í Jerevan.
Mótmælin hófust fyrst þegar Sersj Sarksjan tilkynnti að hann falaðist eftir því að að verða forsætisráðherra. Sarksjan hefur verið forseti Armeníu í áratug en samkvæmt stjórnarskrá mátti hann ekki sitja lengur. Stjórnskipun landsins hafði þá einnig verið breytt þannig að að embætti forsætisráðherra yrði það valdamesta.
Sarksjan sagði af sér í síðustu viku skömmu eftir að þingið hafði samþykkt hann sem forsætisráðherra. Í hans stað var lagt til að Níkol Pasjinjan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, tæki við embættinu. Repúblikanaflokkur Sarksjan kom hins vegar í veg fyrir kjör hans í þinginu í gær.
Mótmælin í Armeníu þykja minna um margt á þau sem skóku Úkraínu veturinn 2013 til 2014. Líkt og Viktor Janúkóvitsj, þáverandi forseti Úkraínu, hefur Sarksjan verið hallur undir stjórn Vladímírs Pútín í Rússlandi.
Þá saka margir Armenar Sarksjan og stjórnarflokk hans um spillingu og vinhygli.
Fjöldamótmælin í Armeníu halda áfram

Tengdar fréttir

Handtóku mótmælendur í stórum stíl
Nærri 200 mótmælendur og þrír leiðtogar stjórnarandstöðunnar voru handteknir í Armeníu í gær.

Forsætisráðherra Armeníu segir af sér í skugga fjöldamótmæla
Hann hefur verið sakaður um að hafa látið breyta stjórnarskrá til þess að geta setið áfram sem valdamesti embættismaður landsins.

Þingið hafnaði Níkol Pasjinjan
Níkol Pasjinjan, leiðtogi armensku stjórnarandstöðunar, náði ekki að tryggja sér nógu mörg atkvæði á þinginu í gær til þess að tryggja sér forsætisráðuneytið.

Karapetjan tekur við af Sargsjan
Karen Karapetjan, fyrsti varaforsætisráðherra Armeníu, er nú starfandi forsætisráðherra eftir að Sersj Sargsjan sagði af sér í gær.