„Ég veit ekki til þess að aðrir en þjónustufulltrúarnir hafi verið lækkaðir í launum, sem notabene eru lægst launuðu starfsmenn hússins,“ segir Örvar Blær Guðmundsson, námsmaður og fyrrverandi þjónustufulltrúi í Hörpu, sem sagði upp í gær. Hann segir starfsmenn verulega ósátta við að hafa verið stillt upp við vegg til að taka á sig launalækkun aðeins rúmum mánuði eftir að laun forstjórans voru hækkuð um rúm 20 prósent síðastliðið sumar.
Sjá einnig: Forstjóri Hörpu fékk 20 prósenta launahækkun
Örvar segir að tilkynnt hafi verið um aðgerðirnar í lok september, en þær fólu í sér að tímakaup fyrir kvöld- og helgarvinnu átti að lækka um 12,7 prósent, en dagvinnutaxti um 21,4 prósent. Auk skerðingar á fjölda greiddra tíma fyrir útköll til vinnu. Lagður hafi verið fram nýr ráðningarsamningur fyrir starfsmenn til undirskriftar.
Örvar segir að tilboðið hafi vægast sagt lagst illa í fólk á þeim tíma og því hafi verið leitað til lögfræðinga stéttarfélagsins VR.

Nýr samningur tók gildi í ársbyrjun 2018 en þar varð lendingin að yfirvinnukaup starfsmanns með árs starfsreynslu eða meira lækkaði um tæp 9 prósent og dagvinnutaxti um 17 prósent.
Örvar segir nokkra þjónustufulltrúa hafa sagt upp þá.
„Þetta er auðvitað þægileg vinna með skóla og flestir tóku nýja samningnum. Ekki með glöðu geði, en eftir að þessi frétt birtist, þá breytti það öllu. Ég er búinn að tala við krakkana sem eru að vinna með mér og það er mikil reiði meðal þeirra,“ segir Örvar.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að þjónustufulltrúum hafi áður verið greitt 40 prósenta álag umfram dagvinnutaxta kjarasamninga og 26 prósent á yfirvinnu, auk 4 tíma lágmarks óháð framlagi. Samningum þjónustufulltrúa hafi verið sagt upp með 4 mánaða fyrirvara síðastliðið haust. Í nýjum samningi sé nú greitt 15 prósent umfram kjarasamninga jafnt á dagvinnu og eftirvinnu og aðeins greitt 4 tíma lágmark um helgar en 3 í dagvinnu.
Hún staðfestir að aðrir starfsmenn hafi ekki sætt viðlíka launalækkunum, hvorki hún né aðrir stjórnendur. „En ég ítreka að þessi vinna er enn í fullum gangi og er engan veginn lokið.“