Ólafía Þórunn Kritinsdóttir vann sér inn peningaverðlaun í þriðja sinn á tímabilinu á LPGA-mótaröðinni í golfi er hún hafnaði í 32.-45. sæti á Sjálboðaliðamóti Ameríku í Texas um helgina.
Ákveðið var eftir frestanir á fimmtudag og föstudag að aðeins tveir hringir yrðu spilaðir á mótinu. Ólafía spilaði frábærlega á fyrri hringnum og var þá í þriðja sæti en gaf eftir á þeim síðari.
Aðeins 70 efstu kylfingarnir á mótinu fengu peningaverðlaun en Ólafía hafði aðeins komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum af átta áður en fyrir mót helgarinnar í Texas.
Ólafía fékk 7.147 dollara (867 þúsund krónur) fyrir árangur helgarinnar og er nú í 107. sæti peningalista LPGA-mótaraðarinnar með 22.416 dollara eða 2,7 milljónir króna.
Það skiptir Ólafíu miklu máli að vera ofarlega á peningalistanum til að endurnýja þátttökurétt sinn á LPGA-mótaröðinni á næsta keppnistímabili. 100 efstu á listanum komast aftur inn en efstu 80 eru í fyrsta forgangsflokki kylfinga, þar sem Ólafía er nú eftir góðan árangur á síðustu leiktíð.
Ekkert mót er á LPGA-mótaröðinni um helgina en það næsta fer fram í Williamsburg í Virginíufylki og hefst það 17. maí. Reiknað er með því að Ólafía verði á meðal þátttakenda.
