Viðskipti erlent

Íslandsvinir safna fyrir íslensku kaffihúsi í Liverpool

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dean Caffery og Hannah Sharp eru vongóð um að þeim takist að safna fyrir íslenska kaffihúsinu.
Dean Caffery og Hannah Sharp eru vongóð um að þeim takist að safna fyrir íslenska kaffihúsinu. Brinkwire
Ef allt gengur að óskum mun kærustuparið Dean Caffery og Hannah Sharp opna „íslenskt kaffihús“ í úthverfi Liverpool í lok maímánaðar.

Þau Caffrey og Sharp eru miklir Íslandsvinir og hafa ófáum sinnum sótt landið heim. Í samtali við breska miðla segjast þau hafa kolfallið fyrir íslenskri matargerð og menningu á ferðum sínum um Íslands. Hins vegar sé lítið um skandinavískan mat í Liverpool og því segjast þau hafa ákveðið að taka málin í sínar hendur. Parið hefur hafið söfnun á Kickstarter svo að þau geti látið draum sinn um kaffihúsið One Percent Forest rætast.

Þar munu þau bjóða upp mat og drykk að íslenskum sið, úr hráefnum sem vinsæl eru hér á landi. Sem dæmi nefna þau íslenskar vöfflur, pylsur og hafagraut - ásamt fjölda íslenskra bjóra og hanastéla. Þá munu þau einnig leggja mikið upp úr góðu kaffi, enda segja þau að kaffi sé mikilvægur hluti af íslensku þjóðarsálinni.

„Við höfum farið þangað [til Íslands] margoft til að skoða og rannsaka. Við trúlofuðum okkur meira að segja þarna. Þetta er svo fallegt land, við heilluðumst umsvifalaust af lífstíl Íslendinga og við vildum endilega flytja smá af honum til Liverpool. Ég vona aðrir falli líka fyrir honum,“ segir Dean Caffery.

Þau hafa nú þegar lagt um 15 þúsund pund, rúmar 2 milljónir króna, til rekstursins og ætla sér að safna rúmlega 700 þúsund krónum til viðbótar.

Fólk sem hefur áhuga á því að aðstoða Dean og Hönnuh við að láta draum sinn rætast geta styrkt þau hér. Þar má einnig nálgast frekari upplýsingar um One Percent Forest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×