Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - FH 23-27 | FH komið í undanúrslit

Smári Jökull Jónsson skrifar
vísir/anton
FH er komið í undanúrslit Olís-deildarinnar eftir þægilegan sigur á Aftureldingu í Mosfellsbæ í dag. Lokatölur 27-23 og Mosfellingar komnir í sumarfrí.

Það var að duga að drepast fyrir Aftureldingarmenn í dag og það sást í byrjun. Þeir mættu svakalega grimmir til leiks, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og spiluðu fast á FH í vörninni.

Gestirnir voru lengi að ná fyrsta markinu en eftir það náðu þeir áttum. Ágúst Elí varði nokkur mikilvæg skot og hinir fylgdu með. Þeir náðu fljótlega yfirhöndinni en heimamenn voru þó aldrei langt á eftir.

Mikk Pinnonen fór algjörlega á kostum í liði heimamanna og skoraði sjö af fyrstu átta mörkum þeirra. Sóknarlega áttu heimamenn samt í smá vandræðum og undir lok fyrri hálfleiks náðu FH-ingar tveimur hraðaupphlaupsmörkum sem skiluðu þeim fjögurra marka forystu inn í hálfleikinn.

Í síðari hálfleik var svo eiginlega aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. FH-vörnin var ógnarsterk og áttu heimamenn í stökustu vandræðum. Munurinn jókst og varð mest sjö mörk og þrátt fyrir ýmsar tilraunir heimamanna í vörn og sókn varð leikurinn aldrei spennandi.

Lokatölur urðu 27-22 og FH því komið í undanúrslit Olís-deildarinnar.

Af hverju vann FH?

Þeir sýndu það í dag að þeir eru einfaldlega betri en Afturelding. Þegar Hafnfirðingar ná vörninni sinni í gang er erfitt að komast í gegnum þá og í sókninni hafa þeir mörg vopn. Það vopn sem virkaði best í dag var Ásbjörn Friðriksson en hann var frábær og skoraði 11 mörk í 15 skotum.

Það er mikilvægt fyrir FH að vera komnir með varnarleikinn sinn í gang á ný en hann hefur ekki verið sérlega sannfærandi eftir áramótin. Það er ekki erfitt að komast í gegnum varnarmúr FH þegar þeir spila líkt og þeir gerðu í dag.

Þessir stóðu upp úr:

Ásbjörn var frábær eins og áður segir og dró vagninn sóknarlega fyrir FH ásamt Gísla Þorgeiri Kristjánssyni sem opnar vel fyrir aðra þó svo að hann hafi bara skorað tvö mörk í dag. Arnar Freyr skoraði mikilvæg mörk og Ágúst Elí var ágætur í markinu.

Hjá Aftureldingu var Mikk magnaður í fyrri hálfleik en það fjaraði algjörlega undan honum í þeim síðari. Aðrir geta betur og Mosfellingar þurftu að hafa mikið fyrir mörkunum sínum í dag enda vörn gestanna sterk eins og áður hefur komið fram.

Hvað gekk illa?

Afturelding hélt ekki út eftir fína byrjun. Þeir fengu brottvísanir sem slógu þá útaf laginu og mörkin undir lok fyrri hálfleiks voru dýr þegar FH-ingar fóru úr tveggja marka mun í fjögurra marka mun á síðustu mínútu hálfleiksins. 

Lárus Helgi Ólafsson í markinu var ágætur í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik var vörnin lítið að hjálpa honum. Kolbeinn Aron hefur oft komið inn af krafti en gerði það ekki í dag.

Afturelding þarf einfaldlega fleiri leikmenn sem spila af eðlilegri getu en var raunin í dag.

Hvað gerist næst?

Afturelding er komin í sumarfrí og það fyrr en þeir ætluðu sér því það var miklu tjaldað til fyrir tímabilið. Þeir hafa átt í meiðslavandræðum í allan vetur og misst lykilmenn úr leik á löngum stundum.

FH er hins vegar komið í undanúrslit og mæta þar sigurvegaranum úr einvígi Selfoss og Stjörnunnar. Selfyssingar unnu öruggan sigur í fyrsta leiknum og flestir gera ráð fyrir að þeir klári Stjörnuna. Það kemur í ljós á morgun hvað gerist þegar liðin mætast í annað sinn.

Halldór Jóhann: Við vorum frábærir
Halldór Jóhann var ánægður með leik sinna manna í dag.vísir/eyþór
Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH sagðist vera gríðarlega ánægður eftir sigurinn á Aftureldingu í dag og þá staðreynd að FH-ingar væru komnir í undanúrslit Olís-deildarinnar.

„Þetta var ekki auðvelt. Þeir eru með vel mannað lið og stóran og breiðan hóp. Við vorum frábærir og höfum verið það í 110 mínútur í þessu einvígi. Varnarleikurinn var frábær fyrir utan fyrstu 5-6 mínúturnar og strákarnir eiga mikið hrós skilið fyrir þeirra framlag í dag,“ sagði Halldór Jóhann við Vísi að leik loknum í dag.

Afturelding byrjaði af krafti og komst í 3-0 strax í upphafi. FH skoraði ekki mark fyrr en eftir rúmar 5 mínútur og heimamenn gengu á lagið.

„Við bjuggumst náttúrulega við því að þeir myndu öskra sig inn í leikinn, vera grimmir og eðlilega gera þeir það á sínum heimavelli til að fá líf í húsið. Mér fannst við taka því full rólega í byrjun en héldum haus. Við vitum að leikur í úrslitakeppni getur verið 60, 70 eða 80 mínútur og komum okkur inn í leikinn hægt og rólega.“

„Vörnin fór að smella og við fórum að skora góð mörk frammi. Það var virklega ánægjulegt að sjá það og sterkur kafli í lok fyrri hálfleiks lagði grunninn að framhaldinu hjá okkur,“ en FH jók muninn úr tveimur í fjögur mörk á síðustu mínútu fyrri hálfleiks með tveimur hraðaupphlaupsmörkum.

Halldór Jóhann sagði að FH-ingar væru búnir að vinna mikið í varnarleiknum og var sammála því að það væri mikilvægt að vera með hann í lagi nú þegar úrslitakeppnin er hafin.

„Við þurfum að halda áfram og sérstaklega þegar stutt er á milli leikja, þá er mikilvægt að leikmenn séu einbeittir á öllum fundum og æfingum. Það gefst kannski alltaf tími til að fara yfir hlutina niðri á gólfi. Menn vilja frekar spila en æfa og við erum í þeirri stöðu að vera komnir í 4-liða úrslit. Við vitum ekki hverja við fáum en við þurfum að spila okkar besta leik til að fara í gegnum það,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Einar Andri: Guðjón L var búinn að fletta þessu upp í reglubókinni sinni
Einar Andri Einarsson er þjálfari Aftureldingar.vísir/eyþór
„Við byrjuðum af krafti og spiluðum vel. Við lögðum allt í þetta en FH-ingar eru sterkari en við líkt og í síðasta leik og í vetur. Við töpuðum bara fyrir betra liði og þurfum að horfast í augu við það,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar eftir tapið gegn FH í dag sem sendi Mosfellinga í sumarfrí.

Undir lok leiksins átti sér stað sérstakt atvik þar sem leikmenn Aftureldingar voru of margir inni á vellinum og fengu fyrir það brottvísun. Einar Andri var ekki allskostar sáttur og uppskar aðra brottvísun frá eftirlitsmanninum, Guðjóni L. Sigurðssyni.

„Ég var ekkert að kvarta í dómurunum. Það var vitlaus skipting og leikmaðurinn sem fattaði það hleypur út af og það er aðal varnarmaðurinn í liðinu sem við viljum hafa inni á vellinum.“

„Yfirleitt þegar of margir eru inná fær bekkurinn að velja hver fer út en Guðjón L. Sigurðsson var búinn að lesa þetta allt út og fletta upp í reglubókinni sinni og fann þetta út,“ sagði Einar Andri og mátti greina vott af kaldhæðni í orðum hans.

Mosfellingar mættu til leiks fyrir tímabilið með vel mannað lið sem búist var við töluvert miklu af en staðreyndin er sú að þeir eru komnir í sumarfrí eftir tap í 8-liða úrslitum.

„Þetta eru virkileg vonbrigði, við ætluðum okkur stærri hluti. Við byrjuðum tímabilið illa en lékum síðan vel á löngum kafla og náðum að koma okkur í þokkalega stöðu í deildinni. Við erum búnir að vera með mannskapinn okkar í nokkrar vikur í þokkalegu standi og höfðum trú á að við gætum spilað betur.“

„FH-ingar voru einfaldlega betri og við þurfum að horfast í augu við það. Það má hrósa þeim og óska þeim góðs gengis í framhaldinu,“ sagði Einar Andri að lokum og bætti við að hann yrði áfram þjálfari liðsins á næstu leiktíð.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira