Klukkan 09.00 í fyrramálið opnar síðasti miðasöluglugginn fyrir HM í Rússlandi. Það er betra að vera á tánum því fyrirkomulagið er fyrstur kemur, fyrstur fær.
Í síðasta miðasöluglugga voru til sölu miðar á alla leiki nema úrslitaleik mótsins sem og á leik Íslands og Argentínu. Íslendingum til mikillar armæðu.
Í frétt FIFA í dag um miðasölugluggann kemur fram að í boði séu miðar á alla leiki og þar af leiðandi á leik Íslands og Argentínu. Það er því enn von um að fá miða á leik Íslands gegn Messi og félögum.
Ekkert er vitað um hversu margir miðar eru í boði á leikinn eftirsótta í Moskvu.
Miðasalan fer fram á vef FIFA sem má nálgast hér.
