Innlent

Telja sig komna með tök á eldinum: „Svakalega mikið tjón“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Slökkviliðið er að störfum.
Slökkviliðið er að störfum. Vísir/Rakel Ósk
Slökkvilið telur sig hafa náð tökum á eldinum í verslunar- og iðnaðarhúsnæðinu í Miðhrauni í Garðabæ. Notast er við krabba til þess að hjálpa slökkviliðinu að komast í rými sem erfitt getur verið að komast að.

„Við erum komnir í seinni áfangann en hann getur oft verið drjúgur í tíma,“ segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri í samtali við Vísi.

Vinna slökkviliðs snýst nú að mestu um að hreinsa til og slökkva í hreiðrum þar sem eldglæður geta leynst. Til þess er notast við aðstoðar krabba þar sem ekki er þorandi að senda slökkviliðsmenn inn.

„Hann fer í gegnum þakið og opnar þá fyrir okkur eða lyftir kannski upp stæðum og við getum þá slökkt í því sem er undir,“ segir Jón Viðar.

Krabbinn að störfum.Vísir/Rakel Ósk
Í tilkynningu frá slökkviliðinu segir að reykmengun frá stórbrunanum sé að mestu gengin yfir en þar sem reykurinn er mjög skaðlegur sé ráðlagt að halda börnum í leik- og grunnskólum áfram innandyra. Fólki með viðkvæm öndunarfæri er einnig ráðlagt að halda sig inni.

Ljóst má þykja að húsnæðið er gjörónýtt en þar var verslun og lager Icewear, geymslur á vegum Geymslna ehf, sem og hluti starfsemi Marels. Meðal þeirra sem bíða fregna af því hvort eitthvað hafi bjargast er Björgvin Halldórsson en hann var með geymslurými á leigu í húsinu, þar sem meðal annars mátti finna græjur úr hljóðveri sínu og hluta af búslóð dóttur sinnar, Svölu Björgvinsdóttur söngkonu.

Aðspurður um hvort að eitthvað hafi sloppið segir Jón Viðar að það sé ólíklegt.

„Það er svakalega mikið tjón, ef það er ekki eldurinn þá er það vatnið eða reykurinn.“

Vísir er á vettvangi en beina útsendingu frá slökkvistarfinu má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×