Í húsnæðinu voru um tvö hundruð geymslurými á vegum Geymslna ehf, lager og verslun Icewear sem og hluti starsfemi Marels. Starfsmenn Marels og Icewear áttu fótum sínum fjör að launa en starfsmenn Icewear þurftu sumir hverjir að brjóta hurðir og flýja út um glugga undan eldinum.
Slökkvistarf stendur enn yfir og notast Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við stórvirkar vinnuvélar til að grafa sig inn í húsið, þar sem slökkt er í öllum glæðum sem finnast.
Sjá einnig: Gríðarlegt tjón eftir stórbruna í Garðabæ
Húsið er mjög illa farið ef ekki ónýtt og segir Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, að unnið verði fram eftir nóttu.
Lögreglu hefur enn ekki verið afhentur vettvangurinn til rannsóknar þó svo að starfsmenn tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu séu komnir á vettvang til að rannsaka.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag karlmann vegna gruns um að hann tengdist upptökum brunans í Miðhrauni í morgun. Rannsókn á atvikum hreinsaði hann þó af öllum grun og var honum sleppt.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið handtekinn vegna grunsamlegs háttalags á staðnum í morgun.
Sjá einnig: Maður handtekinn vegna brunans en hreinsaður af sök
Birgir segir að slökkviliðsmenn kanni aðstæður í húsinu. Efri hæðin hjá Geymslum er ónýt en farið verður á neðri hæðina í kvöld og aðstæður skoðaðar þar innandyra. Einn slökkviliðsmaður slasaðist lítillega þegar hann féll á milli hæða í dag.
Þá hafa áhyggjufullir leigjendur sem voru með geymslur á leigu hjá Geymslum ehf. sett sig í samband við fyrirtækið og tryggingarfélög í dag. Trygging er ekki innifalin í þjónustu Geymslna.
Sjá einnig: Dánarbú móðurinnar í eldhafi
Sömuleiðis brunnu allar eignir Dýrahjálpar og sviðsmynd fyrir jólatónleika Siggu Beinteins.
Hér að neðan má sjá myndir sem starfsmenn fréttastofunnar tóku í Miðhrauni í dag.