Jóhann segir að hann hafi á sínum tíma snúið sér til STEFs, sem gætir höfundarréttargreiðslna fyrir tónskáld hérlendis, vegna þess að hann taldi lagið You Raise Me Up í raun vera lag hans Söknuð sem út kom á árinu 1977. STEF hafi fengið tvo sérfræðinga til að meta lögin og þeir komist að því að þau væru sláandi lík.
STEF hafi í framhaldinu sent systursamtökum sínum í Noregi, TONO, erindi um málið í maí 2004 enda var Norðmaðurinn Rolf Løvland skráður höfundur You Raise Me Up. Jóhann rifjar upp að hann hafi á þessum tíma setið fund með þáverandi framkvæmdastjóra STEFs, Eiríki Tómassyni sem síðar varð dómari við Hæstarétt Íslands. Eiríkur hafi sagt frá símtali sem hann átti við Cato Strøm, forstjóra TONO, vegna málsins.

Cato, sem enn er forstjóri TONO, hafnaði þessari frásögn hins vegar algerlega í svari til Fréttablaðsins í gær. „Ég verð að undirstrika að ég hef aldrei sagt að Løvland sé, eða hafi verið viðriðinn önnur deilumál,“ segir í svari forstjóra TONO.
Á blaðamannafundi Jóhanns Helgasonar á miðvikudag dró Jon Kjell Seljseth, samstarfsmaður Jóhanns og um skeið samstarfsmaður Løvlands, upp þá mynd af Løvland að hann hafi haft tilhneigingu til að fara frjálslega með höfundarvarið efni annarra tónskálda.
Jóhann segir að frá blaðamannafundi hans á miðvikudag hafi málið fyrst og fremst vakið athygli hér innanlands. Mikilvægt sé að það veki eftirtekt erlendis með fjölmiðlaumfjöllun svo það komi fyrir augu fjárfesta sem væru þá til í að leggja fé í málsókn ytra sem kosta muni yfir eitt hundrað milljónir.
„Ég vona það að minnsta kosti því málið er verðugt,“ segir tónskáldið.