Héraðssaksóknari hefur ákært Sigurð Kristinsson fyrir skattalagabrot við rekstur verktakafyrirtækisins SS verks. Sigurður hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í janúar grunaður um stórfelldan fíkniefnainnflutning í svokölluðu skáksambandsmáli.
Tveir aðrir eru ákærðir í málinu, þar á meðal tengdamóðir Sigurðar. Málið verður þingfest í héraðsdómi Reykjaness 30. apríl næstkomandi, en samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara er ákært fyrir meiriháttar skattalagabrot.
Sigurður er eiginmaður Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur, sem hefur legið alvarlega slösuð á sjúkrahúsi á Spáni frá því í janúar síðastliðnum, en gert er ráð fyrir því að Sunna komi til landsins með sjúkraflugi í dag.
Sigurður og Sunna Elvíra bjuggu á Málaga á Spáni en Sigurður var handtekinn þar um miðjan janúar grunaður um alvarlegt brot gegn Sunnu Elvíru þegar hún slasaðist alvarlega eftir fall á heimili þeirra 17. janúar síðastliðinn.
Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum og svo handtekinn við komuna hingað til lands og hefur verið í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma.
