Seðlabanki Íslands varar við svikapóstum sem sendir hafa verið nýverið þar sem m.a. kemur fram nafn Seðlabanka Íslands, að því er fram kemur í viðvörun á vef bankans.
„Seðlabankinn á enga aðild að þessum tilkynningum sem sagðar eru sendar í nafni kortafyrirtækja. Augljóst er að um svindl er að ræða, samanber tilkynningar frá kortafyrirtækjum, og er fólk því varað við því að bregðast við póstunum,“ segir í tilkynningu.
Töluvert hefur borið á sambærilegum viðvörunum að undanförnu. Lögregla hefur ítrekað þurft að vara við netglæpum af ýmsum toga, til að mynda svikabeiðnum frá ættingjum og vinum auk svokallaðs BEC-tölvupóstasvindls. Í þeim tilvikum beinast svikin einna helst gegn fyrirtækjum og stofnunum, sem fá gjarnan senda tölvupósta sem tengjast viðskiptum fyrirtækisins og jafnvel í nafni starfsmanns banka eða annarrar fjármálastofnunar.

