Talsmaður Vladimir Putin, forseta Rússlands, hefur líkt þeim Hollywood-stjörnum sem sakað hafa Harvey Weinstein um kynferðislegt ofbeldi og áreitni við vændiskonur. Hann segir að þær hefðu átt að stíga fram fyrr.
Dimitry Peskov er talsmaður Putin og lét hann ummælin falla á umræðufundi sem haldinn var í Moskvuháskóla. Var Peskov spurður út í mál rússneska þingmannsins Leonid Slutsky sem stendur frammi fyrir svipuðum ásökunum og Weinstein í Rússlandi.
Sagði Peskov að ásakanirnar á hendur Slutsky væru sannar hefðu konurnar sem sakað hafa hann um kynferðislega áreitni að stíga fram mun fyrr. Taldi hann mögulegt að konurnar hafi stigið fram nú vegna þess að það væri „í tísku“ vegna umræðu um Weinstein.
Sagði hann einnig að mál Slutsky minnti sig mjög á mál Weinstein og lét Petkov vændiskonuummælin falla er hann ræddi um Weinstein.
„Kannski er hann drullusokkur en engin af þeim fór til lögreglu og sagði „Weinstein nauðgaði mér.“ Nei, þær vilja tíu milljónir dollara. Hvað kallar maður konu sem sefur hjá manni fyrir tíu milljónir dollara? Kannski er þetta gróft hjá mér en það er vændiskona,“ sagði Petkov.
Yfir 50 konur hafa stigið fram og sakað Weinsein um ýmis brot, allt frá kynferðislegri áreitni til nauðgunar, en meðal þeirra sem sakað hafa Weinstein um brotin eru leikkonurnar Rose McGowan, Ashley Judd og Mira Sorvino.
Weinstein er einnig sagður hafa komið upp umfangsmikilli starfsemi til þess að koma í veg fyrir að konurnar myndu stíga fram og greina frá ásökununum.