Þolandinn, Guðbjörg Ásdís Ingólfsdóttir, er ein þeirra fimm sem kærðu athafnir Ólafs til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar. Féllst nefndin á að Ólafur hefði í því máli gerst sekur um siðferðisbrot.
Í málinu var hann sakaður um að hafa farið inn í eldhús á vinnustað Guðbjargar Ásdísar, slefað ofan í hálsmál hennar og haft við hana ósiðleg orð um tilvonandi utanlandsferð sóknarnefndar.
Sjá einnig: Brotaþolar segja líkar sögur af sóknarpresti
Valgerður hafði samband við Guðbjörgu Ásdísi þar sem þær eru gamlir sveitungar úr Höfðahverfi við utanverðan Eyjafjörð. „Ég tek það algjörlega upp hjá sjálfri mér að hafa samband við þig en það sem er að brjótast um í mér er hvort þessu máli geti lokið með afsökunarbeiðni og samkomulagi eða hvort málið er það alvarlegt að hann verði að víkja,“ skrifaði Valgerður.
Guðbjörg velti fyrir sér hvað vekti fyrir henni og fannst óþægilegt og varð hissa á að fá þetta bréf frá fyrrverandi ráðherra.
„Ólaf þekki ég þannig að hann tilheyrir ákveðnum klúbbi í Vesturbæjarlauginni sem ég tilheyri líka,“ skrifaði Valgerður til brotaþolans.

Fréttablaðið spurði Valgerði hvort hún hefði spurt hvort hægt væri að leysa málið með öðrum hætti. Valgerður neitar því.
„Nei, ég spurði ekki að því,“ sagði Valgerður. „Auðvitað vonaðist maður til þess að þetta væri ekki alvarlegt því ég þekki manninn að góðu einu og það var allt og sumt, það var ekkert meira.“?
Fimm konur kærðu séra Ólaf Jóhannsson til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar á haustmánuðum í fyrra fyrir athæfi sem þær töldu kynferðislega áreitni og vildu að úrskurðarnefnd færi yfir málin. Var hann sakaður um að sleikja kinnar og eyru kærenda og sleikja tær einnar þeirra. Ólafur var sendur í leyfi í sumar og skikkaður í sálfræðimeðferð til að læra að setja sér mörk í samskiptum við hitt kynið. Hann hafði farið í sams konar meðferð í byrjun áratugarins.