Valdís Þóra spilaði á tveimur höggum yfir pari á fyrsta hringnum í gær og var því 27 sætum frá toppnum. Hún fann sig hinsvegar miklu betur í dag og lék þá á þremur höggum undir pari.
Valdís Þóra fékk fjóra fugla á fyrstu níu holunum og var þar með komin tvö högg undir par samanlagt.
Einn fugl og einn skolli á næstu átta holum en svo fékk hún skolla á átjándu holunni. Valdís hefur þar með tapað þremur höggum á átjándu holunni því hún fékk skramba á henni í gær.
Valdís lék því á 69 höggum í dag eða þremur höggum undir pari. Hún er því ða einu höggi undir pari samtals og kom inn í fjórða sætinu.
Valdís Þóra er þvi í toppbaráttunni fyrir lokahringinn en leiknar verða aðeins 54 holur og mótinu lýkur því á morgun.
Þetta er annað LET-mótið á stuttum tíma þar sem Valdís Þóra er í toppbaráttunni en hún varð í þriðja sæti á Ladies Classic Bonville mótinu sem fram fór í Ástralíu í febrúar.
