Sprengidagur er í dag sem þýðir að langafasta er handan við hornið. Langafasta, eða sjöviknafasta, hefst venju samkvæmt á morgun, öskudag. Sprengidagurinn er því seinasti dagurinn fyrir lönguföstu og eins og flestir kannast við þá er það góður íslenskur siður að fá sér saltkjöt og baunasúpu á þessum degi.
Ljósmyndari Vísis leit við í Melabúðinni og á veitingastaðnum Múlakaffi um hádegisbil í dag þar sem margt var um manninn enda hefur verið boðið upp á saltkjöt og baunasúpu á sprengidegi í Múlakaffi í áratugi. Var vel látið að saltkjötinu sem var í boði í dagi. Þá var einnig mikið að gera í saltkjötinu í Melabúðinni og víst að margir munu bjóða upp á þessa sígildu máltíð í kvöld.
Um lönguföstu segir svo á Vísindavef Háskóla Íslands:
„Langafasta hefst samkvæmt venju á miðvikudegi í sjöundu viku fyrir páska, það er að segja á öskudag, sem getur verið á bilinu frá 4. febrúar til 10. mars. Nafnið á rætur í því að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag. Aska hefur löngum verið tákn hins óverðuga, eins og víða má sjá í Biblíunni og nægir þar að vitna í Mósebók: „Æ, ég hef dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.“ Í augum margra kristinna eru þetta sjö helgustu vikur ársins.“



