Innlent

52 flóttamenn á leið til landsins

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin samþykkti í ágúst síðastliðnum að taka á móti allt að 55 kvótaflóttamönnum á þessu ári og þar af allt að tíu hinsegin flóttamönnum. En Ísland tók í fyrsta skipti á móti hinsegin flóttamönnum árið 2015.

Og nú á næstu vikum er von á 52 flóttamönnum til landsins. Þar af eru tíu hinsegin flóttamenn sem koma frá Úganda og 32 úr flóttamannabúðum í Jórdaníu, sem koma frá Sýrlandi og Írak.

Um er að ræða þrjátíu börn og ungmenni á aldrinum 1-24 ára og 22 fullorðna.

Fjórar fjölskyldur, eða nítján einstaklingar, fara til Fjarðabyggðar og var skrifað undir samkomulag þess efnis í dag. Fimm fjölskyldur eða 23 einstaklingar fara til Vestfjarða og tíu einstaklingar fara til Mosfellsbæjar.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, segist gera ráð fyrir að fólkið komi síðar í þessum mánuði en dagssetningin sé ekki komin á hreint og ekki sé víst að allur hópurinn komi á sama tíma. Undirbúningur sé í fullum gangi.

„Það hefur verið mikil jákvæðni fyrir þessu og sveitarfélögin hafa sótt það að taka þátt. Þetta er gott samstarf milli ríkis og sveitarfélaga ásamt Rauða krossinum sem kemur einnig að undirbúningi,“ segir Ásmundur Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×