Eftir sex skolla á fyrsta hring og aðra fimm skolla á fyrstu ellefu holunum á öðrum hring þá leit allt út fyrir að íslenski kylfingurinn myndi festast í niðurskurðinum og fara að huga að heimferð.
Það hefur verið gaman að fylgjast með fyrstu sporum Ólafíu meðal þeirra bestu í heimi því hún hefur oftast siglt ótrauð í gegnum mesta ólgusjóinn.
Ólafía Þórunn sýndi þannig enn á ný mikinn andlegan styrk í þessari erfiðu stöðu sem hún var í eftir að öðrum hringnum hafði tvisvar verið frestað og hún var að fara út eldsnemma á sunnudagsmorgni að spila holur sem hún átti að spila á föstudaginn.
Ólafía var tilbúin í það krefjandi verkefni og hún byrjaði á því að ná fjórum fuglum á síðustu sex holunum á öðrum hring en með því náði hún niðurskurðinum með glans.
Ólafía fylgdi því eftir og fékk fimm fugla á þriðja hringnum sem skilaði henni 26. sæti á mótinu sem er einn besti árangur hennar á sterkustu mótaröð í heimi.
Ólafía Þórunn hafði þar með náð tíu fuglum á 25 holum og hækkað sig úr +9 í -1 sem er magnaður árangur.
Það var því ekkert skrýtið að Ólafía hafi fagnað árangrinum á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan. Drottning íslenska golfsins styrkti enn stöðu sína í hásætinu og það var við hæfi að kalla á drottningu tísku- og tónlistarheimsins til að fagna því. Þetta var sannkölluð draumaframmistaða en enginn draumur.
Waking up and it’s still not a dream Going from +9 to -1 in 25 holes #mondayfeelspic.twitter.com/kvE6ND4xjC
— Olafia Kristinsd. (@olafiakri) January 29, 2018