Umfjöllun og viðtöl: Valur - Selfoss 29-34 | Selfyssingar skelltu Val í endurkomu Snorra

Anton Ingi Leifsson skrifar
Snorri Steinn snéri aftur á handboltavöllinn í kvöld
Snorri Steinn snéri aftur á handboltavöllinn í kvöld vísir/anton
Selfoss vann gífurlega sterkan útsigur á Val í fimmtándu umferð Olís-deildar karla í kvöld, 34-29, en liðin höfðu því sætaskipti í deildinni. Selfoss er í þriðja sætinu og Valur í því fjórða.

Gestirnir frá Selfossi byrjuðu af miklum krafti. Þeir voru að spila algjöran dúndurvarnarleik og voru komnir með fullt af fríköstum í framliggjandi 3-2-1 vörn sinni sem Valsmenn þurftu smá tíma til að finna lausnir á.

Leið og Valsmenn fundu lausnir á þessum varnarleik hjá gestunum þá snérist leikurinn algjörlega. Heimamenn voru að spila frábæran varnarleik einnig og Sigurður Ingiberg var að verja vel fyrir aftan. Sóknarleikurinn kom svo þegar leið á fyrri hálfleik.

Valsmenn náðu mesta fimm marka forystu í fyrri hálfleik, en á tímabili voru Selfyssingar að spila mjög óskynsamlega. Þeir voru að kasta boltanum auðveldlega frá sér og voru óagaðir sem er þeim ólíkt. Staðan í hálfleik var svo 15-12, Valsmönnum í vil.

Í síðari hálfleik virtist sama ætla að vera uppi á teningnum. Valsmenn voru fljótir að refsa Selfyssingum um leið og þeir töpuðu boltanum, en gestirnir bitu frá sér. Gestirnir breyttu stöðunni úr 19-15 í 19-18 og voru alltaf í seilingarfjarlægð frá heimamönnum.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka var svo staðan jöfn, 24-24, en öllu meiri kraftur og áræðni var í leik Selfyssinga. Þeir virtust slá heimamenn aðeins út af laginu, en Elvar Örn Jónsson var frábær. Stýrði leiknum af festi og skilaði mikilvægum mörkum.

Ungu drengirnir í Selfoss voru sterkari á lokakaflanum, en þeir unnu að lokum með fimm marka mun, 34-29. Þeir sigldu þessu í höfn að endingu með sterkum varnarleik og Elvar stýrði leiknum eins og herforingi sóknarlega.

Með sigrinum höfðu liðin sætaskipti; Selfoss fer upp í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig, en Valur er sæti neðar með stigi minna. Gífurlega sterkur sigur Selfoss, en Valur vann fyrri leik liðanna með átta marka mun. Því náðu Selfyssingar að hefna ófaranna.

Afhverju vann Selfoss?

Sama hvað á dundi þá misstu leikmenn Selfoss aldrei trú á verkefninu. Þeir lentu mest fimm mörkum undir, en þá var einfaldlega bara skipt um varnarafbrigði og raðirnar þéttar. Elvar Örn byrjaði af bekknum, enda búinn að vera meiddur, og kom svo inn í þetta. Hann féll eins og flís við rass, enda þekkir hvern krók og kima.

Með innkomu Elvars, góðum varnarleik og nokkrum vörðum boltum stóðu Selfyssingar uppi sem sigurvegarar í kvöld. Þeirra trú og áræðni skilaði tveimur stigum í hús í kvöld. Patrekur og lærisveinar fara glaðir á koddann í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Elvar Örn Jónsson var stórkostlegur í liði Selfyssinga. Hann skoraði ellefu mörk og dró vagninn í þeirra liði. Þegar hann var ekki að skora var hann að skila stoðsendingum. Atli Ævar Ingólfsson átti einnig afbragðs leik á línunni, bæði í vörn og sókn. Það voru margir sem lögðu sitt innleg í pokann hjá gestunum og þetta var algjör liðssigur.

Valsmegin áttu Magnús Óli Magnússon og Anton Rúnarsson fínan leik. Valsmenn voru í raun löngum köflum ekki að spila neitt illa. Þeir náðu bara aldrei að skilja Selfyssinga eftir. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði vel í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Valsmönnum gekk illa að gera út um leikinn. Um leið og þeir náðu nokkura marka forystu gáfu þeir alltaf aðeins eftir og hleyptu Selfyssingum á nýjan leik inn í leikinn. Því fór sem fór; Selfoss náði loks að jafna metin og tók fram úr heimamönnum sem virtust ráðalausir á tímapunkti.

Hvað gerist næst?

Selfoss spilar gegn Aftureldingu á mánudag, en degi áður fara Valsmenn í Breiðholtið og mæta þar heimamönnum í ÍR. Það er ljóst að baráttan um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni verður afar hörð, en Selfoss, Valur og Haukar eru öll í hnapp.

Patrekur: Kom því miður of snemma heim svo ég hafði tvær vikur til að undirbúa
vísir/anton
„Ég get ekki verið annað en ánægður sérstaklega með síðari hluta leiksins,”

„Ég sagði við strákana í hálfleik að við værum að spila fanta vörn. Við leystum það vel, en vorum að fara illa með dauðafærin. Menn voru pínu kveiktir.”

„Þeir hlustuðu á þá og ef við spilum alla leiki svona erum við góðir,” en leikmenn Selfyssinga misstu aldrei trú á verkefninu þrátt fyrir erfiðleika á köflum.

„Því miður kom ég of snemma heim frá Króatíu svo ég hafði tvær vikur til að undirbúa þennan leik. Við gerðum það vel þjálfarateymið verð ég að segja og þessir strákar eru ekkert að taka sér frí.”

„Þeir tóku einn dag í frí um jólin og ég held ekki á gamlársdag. Þeir eru duglegir og ég vona að þetta hungur sé það mikið að við vinnum fleiri leiki. Ég hrósa strákunum.”

„Valsliðið er feiknalega sterkt og Snorri er mættur aftur. Það er frábært og gott fyrir handboltann. Ég verð að hrósa strákunum og þeir mega vera ánægðir í kvöld.”

Sigurinn fleytir Selfyssingum upp í þriðja sæti deildarinnar, en það var ekki eitthvað sem menn spáðu fyrir mót að þetta lið væri í mögulegri baráttu um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

„Við vissum að við færum upp um eitt sæti ef við myndum vinna og þetta er stór sigur á liði sem varð Íslands- og bikarmeistari á síðustu leiktíð. Þeir hafa einnig bætt eitthvað við sig.”

„Við verðum ángæðir í kvöld og morgun eru það svo lyftingar og jóga,” sagði Patrekur að lokum.

Snorri Steinn: Selfoss spilaði betur og átti sigurinn skilið
Snorri á hliðarlínunni í kvöld.vísir/anton
„Það verður að koma á ljós þegar ég horfi á þennan leik aftur á myndbandi hvað fór úrskeiðis,” sagði spilandi þjálfari Vals, Snorri Steinn Guðjónsson, í leikslok.

„Við vorum komnir í ágætis stöðu, en missum taktinn. Við fáum margar tvær mínútur á stuttum kafla. Þeir voru að spila vel og gera vel úr sínu.”

„Eftir það finnum við ekki þann takt sem við vorum í og því fer sem fer,” en Valsmenn virtust óánægðir með dómgæsluna. Fannst Snorra dómararnir reka of oft útaf?

„Ég veit ekkert um það. Það kemur í ljós.”

Snorri mun halda áfram að spila með liðinu nú eftir áramót, en hann reimaði ekkert á sig skóna fyrir ármaót.

„Já,” sagði Snorri sem fannst sínir menn geta tekið stærra og betra skref frá Selfyssingum og gera þannig út um leikinn.

„Mér fannst við eiga tök á því að vera meira yfir í hálfleik og svo byrjar síðari hálfleikur á því að liðin skiptast á að skora. Lítið um varnir og bæði lið að hlaupa góð hraðaupphlaup.”

„Við spiluðum illa úr þessum tveimur mínútum og við gerðum það illa bæði sóknar- og varnarlega. Það breytir því ekki að Selfoss spilaði betur en við og áttu sigurinn skilið.”

Snorri segir að hann sé ekki kominn með hugann í það að verja heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

„Það getur vel verið. Ég er ekki kominn svo langt. Við eigum leik gegn ÍR á mánudag og það er næst,” sagði Snorri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira