Lífsstílsblogg og skaðsemi sjálfskipaðra heilsu-spámanna Sif Sigmarsdóttir skrifar 13. janúar 2018 07:00 Árið 1702 fluttist George Cheney, skoskur læknir, til Lundúna. Nokkrum árum síðar skrifaði hann metsölubók um heilsufar, The English Malady. Bókinni má lýsa sem lífsstílsbloggi átjándu aldar: „Þegar ég flutti til London breyttist lífsstíll minn ... Heilsu minni stórhrakaði á örfáum árum ... Ég fitnaði mikið, ég var alltaf móður, orkulítill og hálfdofinn.“ En síðan breytti hann mataræðinu og varð nýr maður. Ráð Cheney til lesenda sinna var að nærast á engu öðru en mjólk og grænmeti. Kúrinn sagði Cheney allra meina bót; hann læknaði gigt, krabbamein og andlega kvilla.Hreint mataræði „Veikindin höfðu gríðarleg áhrif á líf mitt,“ sagði Ella Mills Woodward, einn þekktasti matar-, lífsstíls- og heilsubótarbloggari Bretlands, í viðtali árið 2016. „Vinkonur mínar töluðu um strákana sem þær höfðu kysst kvöldið áður ... en það sem mér var efst í huga var hvort ég gæti staðið upprétt þá stundina.“ Í háskóla greindist Ella með það sem kallast á ensku postural tachycardia syndrome, heilkenni sem lýsir sér í auknum hjartslætti, svima, yfirliði, höfuðverk, ógleði og þreytu þegar sest er niður eða staðið er upp. Í kjölfarið snarbreytti hún mataræði sínu, tók að sneiða alfarið hjá unnum matvörum og borðaði fyrst og fremst ávexti og grænmeti. Hún kom á fót bloggi sem hún kallaði Ómótstæðileg Ella þar sem hún deildi reynslu sinni, uppskriftum og ráðum um hvernig öðlast mætti betri heilsu með því að borða eins og hún. Vinsældir bloggsins urðu miklar, matreiðslubækur hennar urðu metsölubækur og fyrr en varði var Ella orðin helsti forgöngumaður mataræðis sem kallað er „clean eating“ eða hreint mataræði.Valhnetur lækna heilann Dellur í mataræði eiga sér alda langa sögu. Erfitt er annað en að hlæja að breska grasafræðingnum William Coles sem á sautjándu öld taldi fólki trú um að fæða sem líktist ákveðnum líkamshlutum gæti læknað kvilla í þeim; þannig læknuðu valhnetur heilann og jurtin augnfró, sem þótti líkjast auga, var talin lækna augnsýkingar. Þau heilsubótarráð sem borin eru á borð fyrir okkur í dag eru þó mörg hver alveg jafnhlægileg. Sjaldan rignir yfir okkur jafnmörgum hugmyndum að betri heilsu, betri lífsstíl og betri línum en í janúarmánuði. Oft eru þær færðar okkur í glansbúningi af fögrum og jafnvel frægum sendiboða. Samtök breskra næringarfræðinga hafa nú tekið sig til og varað við skaðsemi þessara góðu ráða. Á dögunum gáfu þau út lista yfir heilsufarsráð og megrunarkúra fræga fólksins sem skal sérstaklega varast árið 2018. Helstu skaðvaldarnir voru taldir hráfæðis-vegan kúr sem Gwyneth Paltrow og Sting mæla með, basískt mataræði Söruh Ferguson, hertogaynju af York, og lágkolvetna ketógenískt mataræði sem Kim Kardashian aðhyllist.Ein dæmisaga En dellu-kúrar þessir eru ekki aðeins hlægilegir. Þeir eru skaðlegir. Á síðasta ári gerði Ella Mills Woodward tilraun til að segja skilið við „hreina mataræðið“ og afneitaði því í heimildarþætti í Breska ríkissjónvarpinu. Kúrinn hafði þá fengið á sig óorð og verið harðlega gagnrýndur fyrir fullyrðingar um heilsubót og lækningarmátt sem enginn vísindalegur fótur var fyrir. Margir sem fylgdu kúrnum hættu að neyta mjólkurafurða sem leiddi til kalkskorts og beinþynningar. Kúrinn var einnig talinn geta leitt til lystarstols hjá ungu fólki sem og orthorexiu, alvarlegrar áráttuhegðunar í tengslum við mat. Þótt lífsstílsbloggara með þúsund vini á Instagram líði betur í eigin skinni eftir að hafa hætt að borða kolvetni, kjöt og sykur þýðir það ekki að áhrif mataræðisins séu vísindaleg staðreynd. Ein dæmisaga hefur ekkert tölfræðilegt sannleiksgildi þegar kemur að vísindalegri aðferðafræði. Bók Cheney um ágæti þess að nærast aðeins á mjólk og grænmeti kom út árið 1733. Í dag ættum við að vita betur. Ein öruggasta leiðin til að gæta að heilsunni árið 2018 er að sneiða hjá dellu-kúrunum sem andlegir uppvakningar átjándu aldar, hinir sjálfskipaðu heilsu-spámenn, prédika nú af jafnmiklum ákafa og þeir gera af vanþekkingu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Sorg barna - fyrstu viðbrögð barna við missi Matthildur Bjarnadóttir Skoðun Með styrka hönd á stýri í eigin lífi Árni Sigurðsson Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Hjólað inní framtíðinna Búi Bjarmar Aðalsteinsson Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Halldór 11.01.2025 Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun
Árið 1702 fluttist George Cheney, skoskur læknir, til Lundúna. Nokkrum árum síðar skrifaði hann metsölubók um heilsufar, The English Malady. Bókinni má lýsa sem lífsstílsbloggi átjándu aldar: „Þegar ég flutti til London breyttist lífsstíll minn ... Heilsu minni stórhrakaði á örfáum árum ... Ég fitnaði mikið, ég var alltaf móður, orkulítill og hálfdofinn.“ En síðan breytti hann mataræðinu og varð nýr maður. Ráð Cheney til lesenda sinna var að nærast á engu öðru en mjólk og grænmeti. Kúrinn sagði Cheney allra meina bót; hann læknaði gigt, krabbamein og andlega kvilla.Hreint mataræði „Veikindin höfðu gríðarleg áhrif á líf mitt,“ sagði Ella Mills Woodward, einn þekktasti matar-, lífsstíls- og heilsubótarbloggari Bretlands, í viðtali árið 2016. „Vinkonur mínar töluðu um strákana sem þær höfðu kysst kvöldið áður ... en það sem mér var efst í huga var hvort ég gæti staðið upprétt þá stundina.“ Í háskóla greindist Ella með það sem kallast á ensku postural tachycardia syndrome, heilkenni sem lýsir sér í auknum hjartslætti, svima, yfirliði, höfuðverk, ógleði og þreytu þegar sest er niður eða staðið er upp. Í kjölfarið snarbreytti hún mataræði sínu, tók að sneiða alfarið hjá unnum matvörum og borðaði fyrst og fremst ávexti og grænmeti. Hún kom á fót bloggi sem hún kallaði Ómótstæðileg Ella þar sem hún deildi reynslu sinni, uppskriftum og ráðum um hvernig öðlast mætti betri heilsu með því að borða eins og hún. Vinsældir bloggsins urðu miklar, matreiðslubækur hennar urðu metsölubækur og fyrr en varði var Ella orðin helsti forgöngumaður mataræðis sem kallað er „clean eating“ eða hreint mataræði.Valhnetur lækna heilann Dellur í mataræði eiga sér alda langa sögu. Erfitt er annað en að hlæja að breska grasafræðingnum William Coles sem á sautjándu öld taldi fólki trú um að fæða sem líktist ákveðnum líkamshlutum gæti læknað kvilla í þeim; þannig læknuðu valhnetur heilann og jurtin augnfró, sem þótti líkjast auga, var talin lækna augnsýkingar. Þau heilsubótarráð sem borin eru á borð fyrir okkur í dag eru þó mörg hver alveg jafnhlægileg. Sjaldan rignir yfir okkur jafnmörgum hugmyndum að betri heilsu, betri lífsstíl og betri línum en í janúarmánuði. Oft eru þær færðar okkur í glansbúningi af fögrum og jafnvel frægum sendiboða. Samtök breskra næringarfræðinga hafa nú tekið sig til og varað við skaðsemi þessara góðu ráða. Á dögunum gáfu þau út lista yfir heilsufarsráð og megrunarkúra fræga fólksins sem skal sérstaklega varast árið 2018. Helstu skaðvaldarnir voru taldir hráfæðis-vegan kúr sem Gwyneth Paltrow og Sting mæla með, basískt mataræði Söruh Ferguson, hertogaynju af York, og lágkolvetna ketógenískt mataræði sem Kim Kardashian aðhyllist.Ein dæmisaga En dellu-kúrar þessir eru ekki aðeins hlægilegir. Þeir eru skaðlegir. Á síðasta ári gerði Ella Mills Woodward tilraun til að segja skilið við „hreina mataræðið“ og afneitaði því í heimildarþætti í Breska ríkissjónvarpinu. Kúrinn hafði þá fengið á sig óorð og verið harðlega gagnrýndur fyrir fullyrðingar um heilsubót og lækningarmátt sem enginn vísindalegur fótur var fyrir. Margir sem fylgdu kúrnum hættu að neyta mjólkurafurða sem leiddi til kalkskorts og beinþynningar. Kúrinn var einnig talinn geta leitt til lystarstols hjá ungu fólki sem og orthorexiu, alvarlegrar áráttuhegðunar í tengslum við mat. Þótt lífsstílsbloggara með þúsund vini á Instagram líði betur í eigin skinni eftir að hafa hætt að borða kolvetni, kjöt og sykur þýðir það ekki að áhrif mataræðisins séu vísindaleg staðreynd. Ein dæmisaga hefur ekkert tölfræðilegt sannleiksgildi þegar kemur að vísindalegri aðferðafræði. Bók Cheney um ágæti þess að nærast aðeins á mjólk og grænmeti kom út árið 1733. Í dag ættum við að vita betur. Ein öruggasta leiðin til að gæta að heilsunni árið 2018 er að sneiða hjá dellu-kúrunum sem andlegir uppvakningar átjándu aldar, hinir sjálfskipaðu heilsu-spámenn, prédika nú af jafnmiklum ákafa og þeir gera af vanþekkingu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun